Reggio Emilia
Reggio Emilia (formlega Reggio nell'Emilia) er borg í Emilía-Rómanja á Norður-Ítalíu með um 172.000 íbúa (2024). Reggio Emilia er, ásamt Parma og Modena, ein af framleiðsluborgum ostsins Parmigiano Reggiano.[1] Reggio Emilia-nálgunin er kennslufræðileg nálgun fyrir leikskóla sem er kennd við borgina.[2]
Borgin var stofnuð eftir að Rómaveldi lagði Gallíu hérna megin Alpa (Gallia Cisalpina) undir sig á 2. öld f.o.t. Hún reis við rómverska veginn via Aemilia sem náði frá Ariminum (nú Rimini) til Placentia (nú Piacenza) og hét upphaflega Regium Lepidi eftir konsúlnum Marcusi Aemiliusi Lepidusi sem stóð fyrir gerð vegarins. Síðar varð borgin ein af höfuðborgum Langbarða sem hertogadæmið Reggio, en á 15. öld varð borgin hluti af hertogadæmi Módena og Reggio sem tilheyrði Este-ætt frá Módena. Borgin var kölluð Reggio di Lombardia þar til hertogadæmið sameinaðist öðrum héruðum undir Konungsríkinu Sardiníu og myndaði nútímaríkið Ítalíu árið 1860. Þá fyrst fékk borgin núverandi nafn.
Tilvísanir
breyta- ↑ Marchi, M. (2015). „Geografie del cibo in Emilia Romagna. Culture alimentari e prodotti tipici“. Ri-Vista. Research for landscape architecture. 13 (2): 42–59. doi:10.13128/RV-17587.
- ↑ Hewett, V. M. (2001). „Examining the Reggio Emilia approach to early childhood education“. Early childhood education journal. 29: 95–100. doi:10.1023/A:1012520828095.