Real Valladolid
Real Valladolid Club de Fútbol, S.A.D., einnig þekkt sem Real Valladolid eða bara Valladolid , er spænskt knattspyrnufélag með aðsetur í Valladolid, héraðshöfuðborg Kastilíu og León. Einkennislitir félagsins eru fjólublár og hvítur og hefur svo verið allt frá stofnun þess þann 20. júní árið 1928. Liðið leikur í næstefstu deild á Spáni eftir að hafa fallið úr La Liga í lok leiktíðarinnar 2020-21. Valladolid telst ekki til sigursælustu liða Spánar, það varð deildarbikarmeistari veturinn 1983-84, hefur tvívegis leikið til úrslita í Copa del Rey og þrívegis komist í Evrópukeppni. Aðaleigandi félagsins er brasilíski fyrrum knattspyrnukappinn Ronaldo.
Saga
breytaReal Valladolid varð til við samruna tveggja félaga, Real Unión Deportiva de Valladolid og Club Deportivo Español, árið 1928 og lék sinn fyrsta kappleik í september sama ár. Liðið komst í fyrsta sinn í efstu deild árið 1948 og varð fyrsta liðið frá Kastilíu og León til að ná þeim árangri. Á sínu öðru ári í hópi þeirra bestu, leiktíðina 1949-50, komst liðið alla leið í úrslitaleik spænska konungsbikarsins en tapaði þar fyrir Athletic Bilbao, 4:1.
Lengst af mátti Valladolid sætta sig við að berjast í neðri hluta La Liga, milli þess sem félagið féll niður í næstefstu deild öðru hvoru. Leiktíðina 1970-71 mátti félagið meira að segja sætta sig við að keppa í þriðju efstu deild. Þessu sífellda flakki milli deilda lauk þó tímabundið þegar Valladolid náði að halda sér í hópi þeirra bestu frá 1980 til 1992. Á þeim árum vann félagið sinn eina stóra titil, með því að leggja Atlético Madrid árið 1984, 3:0 í úrslitum hinnar skammlífu deildarbikarkeppni. Þá komst Valladolid í úrslit spænska bikarsins vorið 1989 en tapaði 1:0 fyrir Real Madrid.
Silfurverðlaunin í bikarnum veittu Valladolid þátttökurétt í Evrópukeppni bikarhafa árið eftir. Þar komst liðið í fjórðungsúrslit og mætti þar stórliði Monaco. Báðum leikjum liðanna lauk með markalausu jafntefli, en að lokum hafði franska liðið betur í vítaspyrnukeppni og komst í undanúrslitin.
Frá aldamótum hefur Real Valladolid sjö sinnum fallið úr efstu deild eða komist upp á nýjan leik. Árið 2018 var tilkynnt um kaup brasilíska markahróksins Ronaldo á meirihluta bréfa í félaginu. Árið 2020 var eignarhluti hans orðinn rúm 80%.
Titlar
breyta- Silfur (2): 1949/1950, 1988/1989