Real Unión Club de Irún, S.A.D. eða Real Unión er spænskt knattspyrnufélag sem stofnað var árið 1915 í bænum Irún í Baskalandi. Það var eitt af sterkari félögum Spánar á öðrum og þriðja áratugnum og var meðal stofnenda La Liga en hefur í seinni tíð verið í neðri deildunum.

Real Unión Club de Irún, S.A.D.
Fullt nafn Real Unión Club de Irún, S.A.D.
Gælunafn/nöfn Txuri-beltz (Þeir Hvítu og svörtu)
Stytt nafn Real Unión
Stofnað 1915
Leikvöllur Stadium Gal, Irun,

Baskaland,

Stærð 5.000 áhorfendur
Stjórnarformaður Ricardo García
Knattspyrnustjóri Alberto Iturralde
Deild 2ªB – Group 2
2019-2020 17.Sæti
Heimabúningur
Útibúningur
Úrslitaleikur Copa Del Rey árið 1924

Félagið var stofnað við samruna tveggja knattspyrnuliða í Irún, Irún Sporting Club og Racing Club de Irún, það síðarnefnda hafði orðið bikarmeistari árið 1913 eftir sigur á Athletic Bilbao í endurteknum úrslitaleik. Hið sameinaða félag tók í fyrstu upp nafnið Unión Club Irún en breytti því eftir að Alfons 13. Spánarkonungur gaf því konunglega stöðu.

Árin 1918 og 1924 varð félagið bikarmeistari á ný, í bæði skipin eftir sigra á Real Madrid í úrslitum. Seinni titillinn vannst undir stjórn enska knattspyrnuþjálfarans Steve Bloomer. Fjórði og síðasti bikarmeistaratitillinn kom árið 1927, þar sem mótherjarnir í úrslitum voru Arenas Club de Getxo í eina hreina baskneska úrslitaleiknum í sögu keppninnar sem ekki hefur innihaldið Athletic Bilbao.

Þegar La Liga var stofnuð árið 1928 var Real Unión meðal keppnisliða. Félagið náði hæst sjötta sæti af tíu og hafnaði á botninum á sínu fjórða keppnistímabili. Það hefur aldrei aftur komist í efstu deild á Spáni og varið mestum tíma í þriðju og fjórðu efstu deild. Frá árinu 1942 hefur Real Unión þrívegis komist upp í næstefstu deild, síðast árið 2009, en í hvert skipti fallið jafnharðan.