Ragnar Kjartansson (myndhöggvari)

Ragnar Kjartansson (fæddur 17. ágúst 1923 á Staðastað á Snæfellsnesi, dáinn 26. október 1988 í Reykjavík) var íslenskur myndhöggvari og leirlistamaður.

Ragnar Kjartansson á vinnustofu sinni um 1972

Ragnar lærði leirkerasmíði í Listvinahúsinu hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal og Lydiu Zeitner frá 1939 -1941 og var samstarfsmaður þeirra til 1946. Hann sótti kvöldnám 1941-1944 í Myndlista og handíðaskólanum Íslands. Hélt til framhaldsnáms í Slödforeningens skole í Gautaborg í Svíþjóð 1946-1947 og lauk meistaraprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík 1948. Hann var nemandi Ásmundar Sveinssonar um nokkurn tíma og var síðar aðstoðarmaður hans. Ragnar kenndi í Myndlistaskólanum í Reykjavík frá 1951 og var formaður skólastjórna frá 1952(sem jafngilti þá skólastjórastöðu). Hann tók virkan þátt í mótun skólans og var frumkvöðull í myndlistakennslu fyrir börn en hann hafði aflað sér menntunar á því sviði í Danmörku. Hann var einn af mikilvirkustu hönnuðum leirmunagerðar á Íslandi á árunum 1948-1967, stofnaði ásamt fleirum Funa og síðar Glit og vann mest í íslenskan leir. Frá 1946 þegar hann stundaði nám í Svíþjóð gerði hann ýmsar tilraunir með íslenskan leir m.a. blandaði hann hrauni í leirinn sem seinna var kallað hraunkeramik.

Ragnar Kjartansson var prímusmótor fyrir sýningarröðina Útisýningarnar á Skólavörðuholti en Jón Gunnar Árnason var samstarfsmaður hans. Sú fyrsta var haldin 1967 en þær voru tímamótasýningar í íslenskri myndlist. Í kjölfari þeirra var Myndhöggvarafélagið í Reykjavík stofnað árið 1972 og var Ragnar einn af aðalhvatamönnum að stofnun þess og var auk þess í forsvari fyrir því að myndhöggvarafélagið fékk vinnuaðstöðu á Korpúlfsstöðum. Hann var stuðningsmaður ungra myndlistarmanna við stofnun Nýlistasafnsins og var hann meðal stofnfélaga þess og gaf veglega stofngjöf til safnsins.

Bárður er verndarvættur Snæfellinga
Bárður Snæfellsás

Verk Ragnars má finna víða um land til dæmis Stóðið við Gömlu Hringbraut, á móts við BSÍ, í Reykjavík, Stóðhesturinn á Sauðarkróki, Bárður Snæfellsás á Arnarstapa á Snæfellsnesi og Sjómennina á Ísafirði. Hann hélt fjölda einka- og samsýninga og verk hans er að finna á öllum helstu söfnum á Íslandi.

Minningarsjóður um Ragnar Kjartanssonar myndhöggvara1923-1988, var stofnaður af ekkju Ragnars, Katrínu Guðmundsdóttur (1921-2019) og afkomendum þeirra 2003 en þá hefði Ragnar orðið 80 ára. Af því tilefni var keramiksýningin „Ragnar í Glit" haldin í Listasafni ASÍ. Í tengslum við sýninguna komu í ljós gögn sem hann skildi eftir sig sem hafa að geyma mikilvæga upplýsingar sem tengjast nútímalistasögu Íslands. Ragnar starfaði af mikilli þrautsegju fyrir betri kjörum og aðstöðu listamanna, barðist fyrir eflingu Listskreytingarsjóðs Ríkisins og var í stjórn Félags íslenskra myndlistarmanna. Markmið Minningarsjóðsins er að kynna og fylgja eftir lífsstarfi Ragnars sem myndlistarmanns, keramíkers og hvatingarmanns myndlistamanna, auk þess að skrá söguleg gögn og gefa út sem tengjast störfum hans í þágu myndlistar á Íslandi. Ragnar vildi gera myndlist að allmenningseign og en einn liður í að ná því takmarkiði var tuttuga ára sjálfboða starf hans sem formaður stjórnar Myndlistaskólans í Reykjavík. Hann tók þátt í stofnun mydhöggvaradeildar við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands með vini sínum Jóni Gunnari Árnasyni og var mikill áhrifavaldur sem myndlistakennari heillrar kynslóðar myndlistarmanna. Fyrir utan það sem komið hefur fram hér að ofan má nefna að sýningarröðina Listin um landið sem var hleypt af stokkunum 1968 í tengslum við Útisýningarnar en það voru fyrstu nútíma myndlistasýningarnar á landsbyggðinni. Minningarsjóðurinn hefur fram að þessu gefið út bækurnar Útisýningar á Sklólavörðuholti 1967-1970 og Deiglumór, keramik út íslenskum leir 1930-1970.

Tenglar

breyta