Rúllustigi
Rúllustigi er vélknúinn stigi sem notaður er til að flytja fólk milli hæða í byggingu. Stiginn er búinn til úr samföstum þrepum er mynda færiband, sem drifið er áfram af rafmótor, ýmist upp eða niður.
Rúllustigar eru notaðir víða um heim til að flytja fólk í rýmum, þar sem lyftur kunna að vera óhentugar. Rúllustigar eru einna helst notaðir í deildaverslunum, verslunarmiðstöðvum, flugvöllum, byggingum fyrir almenningssamgöngur, ráðstefnuhúsum og hótelum.
Rúllustigar geta flutt stóra hópa fólks og taka sambærilegt pláss og hefðbundnir stigar. Rúllustigum fylgir almennt enginn biðtími, þá má nota til að vísa fólki tilteknar leiðir og hægt er að gera þá vatns- og vindhelda fyrir notkun utandyra. Óvirkan rúllustiga má enn fremur nota sem hefðbundinn stiga þegar mörg önnur samgöngukerfi, til samanburðar, verða ónothæf við bilun.
Rúllustigar á Íslandi
breytaFyrsti íslenski rúllustiginn var settur upp vorið 1963 í verslunarmiðstöðinni Kjörgarði Laugavegi 59.[1] Rúllustiginn vakti mikla athygli og þótti tækniundur sem minnti á erlendar stórborgir. „Getur fólk stigið í neðstu tröppuna og staðið kyrrt meðan hún flytur það upp á næstu hæð, og er að þessu mikið hagræði.“[1] Þeir rúllustigar sem síðar hafa verið settir upp á landinu, hafa langflestir tengst verslunarmiðstöðvum.
Helstu staðir sem hafa eða hafa haft rúllustiga:
- Verslunarmiðstöðvarnar Kringlan og Smáralind[2]
- Verslunarkjarninn Smáratorgi 1[heimild vantar]
- Verslunarmiðstöðin Kjarninn Mosfellsbæ[heimild vantar]
- Verslunarmiðstöðin Glæsibær[heimild vantar]
- Verslunarkjarninn Laugavegi 66[heimild vantar]
- Egilshöll, kvikmyndahús
- Leifsstöð[3]
- Verslunarmiðstöðin Bíldshöfða 20[heimild vantar]
- Verslunarmiðstöðin Fjörður Hafnarfirði[heimild vantar]
- Iðu-húsið Lækjargötu[heimild vantar]
- Tónlistarhúsið Harpa[4]
- Rúmfatalagerinn á Selfossi[5]
Rúllubönd:
- Rúllubandið í Holtagörðum[6]
- Rúlluband í Rúmfatalagernum á Smáratorgi [heimild vantar]
Rúllustigar sem ekki eru lengur til:
- Rúllustiginn í Vörumarkaðnum í Ármúla.[heimild vantar]
- Rúllustiginn í Vöruhúsi KEA, Akureyri[7]
- Rúllustiginn í Kjörgarði við Laugaveg (sá fyrsti á landinu)[8]
- Rúllustiginn í Kaupstað, Mjóddinni.[heimild vantar]
Rúllustigar í íslenskri alþýðumenningu
breyta- Árið 1984 sendi útgáfufyrirtækið Erðanúmúsík tónlistarmannsins Dr. Gunna frá sér safnsnælduna Rúllustigann. Á snældunni voru lög eftir ýmsar kunnar hljómsveitir íslensku nýbylgjunnar s.s. S.H. Draum, Van Hautens Kakó, Vonbrigði og Jóa á hakanum.[9]
- Árið 1990 voru rúllustigar í Kringlunni notaðir í Földu myndavélinni í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn.[10]
- Lokaatriði áramótaskaupsins 1992 gerist í tveimur rúllustigum Kringlunnar.[11]
- Árið 1995 setti leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði upp leikritið Rúllustigarúllettuna, þar sem nýtilkominn rúllustigi í verslunarkjarnanum Firði var gerður að táknmynd firringar í nútímasamfélagi. Í leikdómi í Morgunblaðinu sagði m.a.: Hafnfirðingar hafa tekið af sér skírlífisbeltið. Rúllustigamenningin er komin til að vera. Nú stoppar strætó í nýja miðbænum fyrir framan glerdyr sem gapa ógurlega og sjálfkrafa á móti gestum og fyrir innan gnæfir sjálfur rúllustiginn í miðju holinu eins og óbelíska, nei, eins og hálfrisið reðurtákn í hofi verslunarinnar. Neytandinn er fram leiddur á færibandi eins og vörurnar eru framleiddar sem hann er leiddur fram fyrir. Hreyfimáttur fótanna er tekinn frá honum í þágu framleiðninnar.[12]
Ýmislegt
breytaStærsta rúllustigaslys á Íslandi átti sér stað 5. júní 2014 þegar 10 manns slösuðust í rúllustiga í Leifsstöð.[13]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Morgunblaðið 16. maí 1963“.
- ↑ Viðurkenning Ferlinefndar Kópavogs[óvirkur tengill] Ask arkitektar
- ↑ Laufskálinn fær nýtt hlutverk Morgunblaðið, Morgunblaðið F (29. maí 2006), Blaðsíða 1
- ↑ Styttist óðum í opnun Hörpu. Fréttablaðið, 99. tölublað (30. apríl 2011), Blaðsíða 72
- ↑ [1] Geymt 28 október 2016 í Wayback Machine. Séð og heyrt 2016
- ↑ Breytingar í Holtagörðum Vísir.is
- ↑ Rúllustiginn rifinn Morgunblaðið, 3. tölublað (6. janúar 1987), Blaðsíða 33
- ↑ Rúllustigi í Kjörgarði Morgunblaðið, 109. tölublað (16. maí 1963), Blaðsíða 2
- ↑ „Rúllustiginn á bókasafnsvefnum Gegni“.
- ↑ „Falda myndavélin: Þrír skátar (Youtube)“. Sótt 29. nóvember 2012.
- ↑ „Áramótaskaup 1992 (Youtube)“. Sótt 29. nóvember 2012.
- ↑ „Morgunblaðið 8. mars 1995“.
- ↑ „Frétt Víkurfrétta 5. jún. 2014“.