Piero Sraffa (5. ágúst 1898 - 3. september 1983) var áhrifamikill ítalskur hagfræðingur sem lagði grunninn að ný-Ríkardíska hagfræðiskólanum með bók sinni “Framleiðsla varnings með aðstoð varnings”, (e. Production of Commodities by Means of Commodities). Verk hans beindust að því að ögra ríkjandi hagfræðikenningum með gagnrýni á jaðarhyggju og að endurvekja klassíska hagfræði, sérstaklega kenningar Adam Smith, David Ricardo og að vissu leyti Karl Marx.

Æviágrip

breyta

Sraffa fæddist þann 5. ágúst 1898 í Tórínó á Ítalíu. Foreldrar hans voru vel efnaðir ítalskir gyðingar, Irma Tivoli (1873–1949) og Angelo Sraffa (1865–1937). Faðir Piero var virtur prófessor í viðskiptarétti ásamt því að hafa starfað sem deildarforseti lagadeildar hjá Bocconi Háskóla í Mílanó. Fylgjandi starfsferli föður síns frá einum háskóla til annars hóf Sraffa skólagöngu sína í Parma og hélt áfram námi sínu í Mílanó og Tórínó. Hann var í framhaldsskóla í Tórínó (1913-1917). Seinna hóf hann nám við lagadeildina í Háskólanum í Tórínó þrátt fyrir að foreldrar hans hefðu flutt aftur til Mílanó.

Eftir að hafa útskrifast í Tórínó eyddi hann ári í að mæta í fyrirlestra hjá Edwin Cannan og Herbert Foxwell við London School of Economics. Þar hitti hann John Maynard Keynes. Keynes varð fljótt hrifinn af Sraffa og bauð honum því að skrifa ritgerð um ítalska bankakerfið. Keynes gaf út ritgerðina ”Bankakreppan á Ítalíu” (e. The Bank Crisis in Italy) sem var birt í Economic Journal og bað Sraffa um að semja styttri grein um sama efni fyrir Manchester Guardian Commercial. Í þeirri grein afhjúpaði Sraffa slæma stöðu helstu banka á Ítalíu. Benito Mussolini sem hafði á þessum tíma nýlega tekið við embætti forsætisráðherra sendi föður Sraffa bréf þar sem hann krafðist þess að greinin yrði dregin tilbaka, það var þó ekki gert.

Árið 1920 útskrifaðist Sraffa eftir að hafa gefið út lokaritgerðina sína, “L’inflazione monetaria in Italia durante e dopo la guerra” (e. Monetary Inflation in Italy During and After the War), sem var einnig fyrsta fræðirit hans. Ritgerðin var um verðbólgu á Ítalíu í og eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hann skrifaði ritgerðina undir leiðsögn Luigi Einaudi (1874-1961) sem var ítalskur hagfræðingur og stjórnmálamaður. Einaudi varð seinna meir forseti Ítalíu. Árið 1922 kynntist hann Carlo Rosselli og Raffaele Mattioli, eftir að Sraffa hafi verið skipaður forstöðumaður vinnumáladeildar héraðsins í Mílanó.

Árið 1923 var Sraffa skipaður sem tímabundinn lektor í þjóðhagfræði og opinberum fjármálum við Háskólann í Perugia. Tveimur árum seinna gaf hann út greinina “Sulle Relazioni fra Costo e Quantità Prodotta” (e. On the Relations Between Costs and Quantities Produced) (Um tengsl kostnaðar og framleiðslu) í tímariti Annali di Economia. Greinin innihélt ítarlega gagnrýni á marghluta jafnvægiskenningu Alfred Marshall. Ári síðar gaf hann svo út “Lögmál um afrakstur við samkeppnisskilyrði” (e. The Laws of Returns under Competitive Conditions) í Economic Journal.

Framlög til hagfræðinnar

breyta

Fyrstu verk Sraffa beindust að myntkerfi og bankastarfsemi. Hann gagnrýndi ítalska bankakerfið og stefnu eftirstríðs tímabilsins. Hann gerir tengingu á milli hækkun verðlags og auknu magni peninga í umferð ásamt því að gera grein fyrir mismunandi þróun verðvísitala. Mikilvægasta framlag Sraffa í ritgerðinni felst í aðgreiningunni á milli stöðugleika meðalverðlags innanlands og stöðugleika gengis, sem seinna hafði mikil áhrif á John Maynard Keynes. Árið 1921 hófst samstarf þeirra Sraffa og Keynes, þar sem þeir gáfu út rit um stöðu banka á Ítalíu.

Á árunum 1925 og 1926 gaf Sraffa út ítarlega og harðorða gagnrýni á aðferð Marshalls um hlutajafnvægi í samkeppnismörkuðum. Hann gagnrýndi kenningar Marshall þar sem hann taldi að þær byggðu á ósamræmi, sérstaklega þegar kom að hlutajafnvægi. Greinin var um afrakstur stærðarbreytingu (e. returns to scale) og fullkomna samkeppni (e. perfect competition). Hann andmælti því að framboðsferillinn væri byggður á samspili laga um vaxandi og minnkandi afrakstur. Hann hélt því fram að undirstöður væru í raun svo veikar að þær gætu ekki borið þann þunga sem lagður er á þær. Sraffa gagnrýndi sérstaklega þann hluta kenningar Marshalls sem byggði á lögmálum um vaxandi og minnkandi afrakstur, þar sem hann taldi að þessi lögmál væru ekki nægilega sterk til að halda uppi þeim þunga sem Marshall hafi gert ráð fyrir. Með því að endurbyggja hlutajafnvægislíkna Marshalls um samkeppnismarkaði tókst Sraffa að bera kennsl á takmarkaðri skýringargetu þess.

Hann byggði gagnrýni sína á að mikil samspil eru á milli atvinnugreina en ekki að vörur séu framleiddar með öðrum vörum. Hver atvinnugrein selur afurðir sínar sem nauðsynlegt aðföng til margra annarra atvinnugreina og kaupir afurðir annarra greina sem nauðsynleg aðföng fyrir sína framleiðslu.

Þetta var upphafið að gagnrýni hans á nýklassíska hagfræði. Árið 1927 flutti hann til Cambridge í Englandi eftir að hafa orðið fyrir hótunum frá ítalska fasistastjórninni vegna andfasískra skoðana sinna ásamt tengslum hans við Antonio Gramsci sem var einn af stofnendum ítalska kommúnistaflokksins. Í Englandi var hann fenginn til starfa við Cambridge háskóla þar sem hann hafði mikil áhrif á hagfræði samfélagið. Sraffa kynntist einnig austurríska heimspekingnum Ludwig Wittgenstein árið 1929. Wittgenstein dáðist að víðtækri þekkingu Sraffa en þjáðist einnig vegna hennar. Árið 1943 hættu þeir reglubundnu fundum sínum.

Gagnrýni á kenningu Hayeks

breyta

Sraffa hafnaði grundvallarhugmynd Friedrich Hayek um að frávik raunvaxta frá jafnvægisvöxtum væri einkenni peningahagkerfisins. Samkvæmt Hayek myndu staðgreiðslu- og framtíðarverð allra vara jafnast út í jafnvægi, þannig að allir vextir yrðu jafnir og samsvöruðu peningavöxtum. Sraffa taldi hins vegar að ef framboð og eftirspurn eftir vöru væru ekki í jafnvægi, þá myndi staðgreiðslu- og framtíðarverð vörunnar frávikast, sem myndi einnig valda því að náttúrulega vaxtastig vörunnar yrði frábrugðið náttúrulegum vaxtastigum annarra vara.

Sraffa gagnrýndi einnig skoðun Hayeks um að hagkerfið myndi endurheimta jafnvægi þegar það léti af rangri vaxtastefnu. Sraffa taldi að þetta myndi ekki eiga sér stað, þar sem stefnan hefði á meðan breytt dreifingu auðs og tekna og þar með einni af grunnforsendum jafnvægis.

Frá árinu 1930 helgaði Sraffa tíma sínum í að ritstýra og gefa út safnrit David Ricardo, “Rit og Bréfaskipti Davids Ricardo" (e. The Works and Correspondence of David Ricardo) of David Ricardo, sem var mikilvægur þáttur í að endurvekja áhuga á klassískri hagfræði. Á þessum árum þróaði Sraffa kenningar sínar frekar með áherslu á gagnrýni á jaðarvirði og virðisákvörðun. Verk hans færðu kenningar Ricardos aftur í lykilstöðu innan hagfræðinnar og ögruðu ríkjandi túlkunum jaðarhagfræðinnar. Hann hafnaði nýklassískum hugmyndum um að virði væri ákvarðað af jaðarskilyrðum. Hann hélt fram að það væri frekar tengt framleiðsluferlum. Fyrstu bækurnar af “Rit og Bréfaskipti Davids Ricardo" (e. The Works and Correspondence of David Ricardo) voru gefnar út árið 1951, 31 ári eftir að Sraffa var skipaður ritstjóri af Royal Economic Society. Sraffa byrjar á að túlka ritgerð Ricardo frá 1815, "Ritgerð um tekjur" (e. Essay on Profits), þar sem grunnforsendan er sú að til sé atvinnugrein sem notar ekki framleiðsluvörur frá öðrum atvinnugreinum sem fjármagn, á meðan aðrar atvinnugreinar þurfa að nota afurð hennar sem fjármagn. Atvinnugreinin sem um ræðir er kornframleiðsla. Kornhlutfallskenningin gerir kleift að ákvarða hagnað í korngeiranum á skýran og hlutlægan hátt sem hlutfall af umframframleiðslu deilt með því fjármagni sem var lagt í framleiðsluna. Hagnaðurinn, sem er reiknaður með þessum hætti, er einnig almennur hagnaður, þar sem aðrar atvinnugreinar sem nota korn sem aðföng fá sama hagnað með verðlagningu á vörum sínum í samræmi við kornverð. Korn gegnir lykilhlutverki í kenningum Sraffa þar sem það er grundvallarvara, nauðsynleg beint eða óbeint við framleiðslu allra vara.

Endurskoðun klassískrar kenningar um virði og dreifingu

breyta

Árið 1927 sá Sraffa að Marshallíska túlkunin á klassískri hagfræði sem forvera jaðarhyggju var röng. Hann taldi að klassíska kenningin um virði og dreifingu hefði verið yfirgefin of fljótt þar sem greiningartækin sem fylgjendur þeirra höfðu til ráðstöfunar voru ekki nógu þróuð til að takast á við flækjustig kapítalísks hagkerfis. Klassískir hagfræðingar, eins og Ricardo og Smith, litu á framleiðslu sem hringrás þar sem umframframleiðsla skapaði tekjur, eins og hagnað og rentu. ​​Sraffa gagnrýndi vinnugildiskenninguna og taldi að hún hefði haft skaðleg áhrif á klassísku nálgunina, en hann lagði fram endurbætta útgáfu þar sem virði væri ákvarðað út frá efnislegum inntökum í framleiðslu. Eftir þetta fór hann að skrifa meira og þróa kenningar um virði og dreifingu. Á þessum tíma fékk Sraffa starf í Cambridge. Á þeim tíma sem Sraffa var að ritstýra “Rit og bréfaskipti Davids Ricardo” (e. The works and correspondence of David Ricardo) vaknaði mikill áhugi fyrir klassískri hagfræði hjá honum. Hann hélt áfram að þróa kenningar og hugsanir um klassíska hagfræði og varð þekktur fyrir gagnrýni sína á Marshallíska hagfræði og sérstaklega kenningar um jaðarvirði og virðisákvörðun.

Samkvæmt túlkuninni sem Sraffa setti fram í inngangi að útgáfu sinni af “Rit og bréfaskipti Davids Ricardo” má greina tvö stig í þróun hugsunar Ricardos. Fyrsta stigið, sem Sraffa ályktaði að hafi líklega hafist árið 1814 með athugasemd um „hagnað af fjármagni“, lauk með ritgerðinni frá 1815. Annað stigið hófst með gagnrýni Malthusar á „kornlíkanið“ hans Ricardos og lauk með, “Meginreglur” (e. Principles) árið 1817.

Hagnaðarhlutfallið er jafnt hlutfallinu milli hagnaðar og þess fjármagns sem var lagt til. Augljóslega er nauðsynlegt til að reikna út slíkt hlutfall að hagnaður og lagt fjármagn séu gefin upp í sambærilegum stærðum. Á fyrsta stigi rannsókna sinna náði Ricardo þessu skilyrði með því að túlka hagnað og lagt fjármagn í landbúnaðargeiranum sem mismunandi magn af sama varningi. Hagkerfinu skipt í tvo geira, landbúnað og framleiðslu. Ricardo gerði ráð fyrir að aðeins ein vara, „korn“, væri framleidd í fyrrnefnda geiranum. Korn var einnig eina framleiðsluvaran í landbúnaði, í formi sáðkorns, og eina framfærsla fyrir verkamennina sem störfuðu við jarðrækt.

Við sáum að samkvæmt „Ricardískri“ kenningu um landleigu, á jaðarlandi er landleiga engin, og allur afgangurinn fer til hagnaðar. Á þennan hátt getum við sniðgengið vandamálið með verðmæti, þ.e. þörfina á að ákvarða hlutfallsverð varanna sem fara í lagt fjármagn og afganginn til að geta reiknað út verðmæti hagnaðarins og þess fjármagns sem var lagt til, og þar með hagnaðarhlutfallið. Þar sem samkeppni krefst þess að hagnaðarhlutfallið sé hið sama í mismunandi atvinnugreinum, verður hagnaðarhlutfallið sem reiknað er út á jaðarlandi að gilda í öllum framleiðslugreinum.

Árið 1960 gaf Sraffa út eitt áhrifamesta verk sitt, “Framleiðsla varnings með aðstoð varnings” (e. Production of commodities by means of commodities), sem varð grunnur að ný-Ricardísku hagfræðinnar. Þetta rit var gefið út eftir nokkurra ára yfirlegu. Í ritinu hafnaði Sraffa nýklassískum kenningum um jaðarframleiðni og jaðarnytsemi, ásamt því að sýna að verð framleiðslu væri hægt að ákvarða án þess að styðjast við þessi lögmál. Hann lagði fram kerfi þar sem virði var ákvarðað af framleiðsluferlum og hagnaðarhlutfalli. Hann benti á að það væru takmarkanir í ákvörðun fjármagnsvirðis og vaxtastigs hjá nýklassísku hagfræðinni.

Gagnrýni á kenningu Keynes um lausafjárval

breyta

Sraffa mótmæli ákveðnum atriðum í nýrri kenningum Keynes, þar á meðal kenningunni um lausafjárval. Hann taldi að Keynes hefði misskilið hugmyndina um vöruvexti (e. commodity rate of interest). Sraffa taldi að Keynes hefði notað tvær misvísandi skilgreiningar á hugtakinu og hélt því fram að hugtakið væri aðeins skilgreint út frá væntri verðbreytingu eignarinnar. Sraffa fullyrti því að lausafjár hugtak Keynes væri óljóst og tvírætt, að það væri engin ástæða til að gera ráð fyrir að aukin lausafjárstaða sé alltaf kostur fyrir hvern og einn. Hann taldi einnig að Keynes hafi ranglega viðurkennt Fisher áhrifin fyrir allar vörur nema peninga.

Með þessum verkum Sraffa og framlögum hans til hagfræðinnar, endurvakti hann klassíska hagfræði og leiddi til langvarandi umræðna og rannsókna innan hagfræðinnar. Rannsóknir hans og hugmyndir voru kjarninn í ný-Ricardíska skólanum sem léku einnig lykilhlutverk í Cambridge deilum um fjármagnskenningar. Þar sem áskorun var sett á grundvallarforsendur nýklassískrar fjármagnskenningar og ályktanir hennar um framleiðsluaðferðir og vaxtastig.

Ný-ricardismi

breyta

Nýi-Ricardian skólinn er byggður á hugmyndum David Ricardo. Hann er hins vegar oft tengdur við Sraffa, þar sem Sraffa gagnrýndi grunnforsendur nýklassísku hagfræðinnar og kom með annað sjónarhorn á fræðinni. Nýi-Ricardinskólinn skoðaði mest kenningar um dreifingu (e.distribution) og virði (e.value) ásamt nálgun til að skilja tengsl á framleiðslu, tekjudreifingu og hagvöxt. Hann hjálpaði að endurvekja og -móta klassískar hugmyndir, sérstaklega eftir Ricardo.

Í ritinu sínu Production of Commodities by Means of Commodities sem hann gaf út 1960 sýndi hann fram á að hægt sé að ákvarða verð framleiðslu án þess að styðjast við nýklassísk lögmál eins og jaðarframleiðni og jaðarnytsemi. Hann sýndi að hlutfallsverð, hagnaðarhlutfall og laun væru samtvinnuð og yrðu að vera ákvörðuð samtímis, með áherslu á hlutverk tekjuskiptingar í verðákvörðun. Verk hans dró fram takmarkanir innan nýklassískrar hagfræði varðandi ákvarðanir á virði fjármagns og vaxtastigs, sem leiddi til endurskoðunar á hefðbundnum hagfræðilegum ályktunum. Hann lagði grunninn að kenningum um fákeppni og breytti sýn okkar á klassíska hagfræðinga, sérstaklega í tengslum við Ricardo. Eftir útgáfu bókar hans Production of Commodities by Means of Commodities árið 1960, hefur hún verið notuð til að rannsaka flókin hagfræðileg vandamál eins og samframleiðslu, fastafjármagn og milliríkjaviðskipti.

Tilvísanir

breyta