Norðurslóð, svarfdælsk byggð og bær er héraðsfréttablað Svarfdæla. Fyrsta tölublað kom út í nóvember 1977 og síðan hefur það komið út reglulega á mánaðar fresti en þó oft með lengra hléi yfir hásumarið. Blaðinu er ætlað að vera vettvangur fyrir umræður, skoðanaskipti, upplýsingar og fréttir um hvað eina sem uppi er á teningnum í hinu svarfdælska byggðarlagi og nágrenni þess á líðandi stund. Enginn ritstjóri var yfir blaðinu til að byrja með en útgefendur og ábyrgðarmenn voru Hjörtur Eldjárn Þórarinsson, Jóhann Antonsson og Óttar Proppé. Blaðið er nú með elstu héraðsfréttablöðum sem út koma á landinu. Útgefandi þess er útgáfufélagið Rimar ehf. Útgáfufélagið hélt einnig um skeið úti fréttavefnum dagur.net[1]. Félagið gaf á tímabili út Bæjarpóstinn á Dalvík en þeirri útgáfu hefur verið hætt. Ritstjóri og ábyrgðarmaður Norðurslóðar er Hjörleifur Hjartarson. Sigríður Hafstað hefur einnig verið viðriðin blaðið frá upphafi, annast dreifingu, auglýsingar og framkvæmdastjórn.

Norðurslóð.