Konunglega norska vísindafélagið

(Endurbeint frá Norska vísindafélagið)

Konunglega norska vísindafélagið – (norska: Det Kongelige Norske Videnskabers Selskab, DKNVS) – er vísindafélag í Þrándheimi, og jafnframt elsta vísindafélag í Noregi.

Nýjasti hluti Gunnerusbókasafnsins í Þrándheimi.

Saga félagsins

breyta

Konunglega norska vísindafélagið (DKNVS) var stofnað 1760 af Johan Ernst Gunnerus, biskupi í Niðarósi, Gerhard Schøning þá skólastjóra dómkirkjuskólans í Þrándheimi, og Peter Friderich Suhm kanslara. Upphaflegt nafn var Þrándheimsfélagið (Det Trondhiemske Selskab). Það var þá nyrsta vísindafélag í heimi, og var stofnað þegar Norðmenn áttu enga háskóla eða æðri menntastofnanir. Strax árið 1761 fór félagið að gefa út ritröð sem kallaðist: Trondhiems Selskabs Skrifter, með greinum um vísindaleg efni.

Félagið fékk konunglega staðfestingu á lögum sínum 17. júlí 1767, og núverandi nafn sitt við athöfn á afmælisdegi Kristjáns 7. Danakonungs 29. janúar 1788. Árið 1771 kallaði Johann Friedrich Struensee, sem tekið hafði völdin í dansk-norska ríkinu, Gunnerus biskup til Kaupmannahafnar til að undirbúa stofnun háskóla í Noregi. Ekkert varð úr þeim áformum við fall Struensees árið eftir.

Árið 1768 stofnaði félagið Gunnerusbókasafnið, sem var fyrsta vísindalega bókasafn í Noregi. Það er nú kjarninn í Háskólabókasafninu í Þrándheimi.

Félagið var með höfuðstöðvar í Dómkirkjuskólanum í Þrándheimi til 1866, þegar það eignaðist eigið húsnæði. Lengi var eitt af verkefnum félagsins að reka Vísindasafnið (Vitenskapsmuseet), en árið 1968 tók Tækniháskólinn í Þrándheimi að sér rekstur þess (nú Tækni- og vísindaháskólinn í Þrándheimi). Árið 1984 voru Vísindasafnið og Gunnerusbókasafnið formlega afhent norska ríkinu. Árið 1926 var hafin útgáfa á nýrri ritröð: Det Kongelige Norske Videnskabers Selskabs Forhandlinger.

Í tilefni af 200 ára afmæli félagsins árið 1960, var gefin út saga félagsins í tveimur bindum, rituð af Hans Midbøe. Árið 2010 fagnar félagið 250 ára afmæli sínu.

Skipulag

breyta

Í stjórn félagsins eru sjö menn, og er dagleg stjórn í höndum skrifstofu. Frá 1924 hefur félagið skipst í Akademíu, sem er hið eiginlega vísindafélag, og sérstaka stofnun (stiftelse), sem sér um að reka sjóði og aðrar eignir félagsins. Akademían skiptist í tvær deildir, hugvísindadeild og náttúruvísindadeild. Stjórnin veitir viðurkenningu fyrir afburða vísindaframlag, Gunnerus-heiðurspeninginn, sem fyrst var veittur árið 1927.

Fyrir 1815 var Danakonungur að nafninu til forseti félagsins, en æðsti stjórnarmaður var titlaður varaforseti. Frá 1815 hefur sitjandi konungur borið titilinn verndari. Núverandi verndari er Haraldur 5. Noregskonungur.

Árið 2008 voru 609 félagsmenn í Konunglega norska vísindafélaginu, þar af voru 466 búsettir í Noregi. Norskir félagsmenn, yngri en 70 ára, mega vera 400 talsins.

Frá árinu 1857 hefur annað vísindafélag verið starfrækt í höfuðborginni Osló, Norska vísindaakademían.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta