Nikulás Þormóðsson

Nikulás Þormóðsson (um 144028. október 1521) var íslenskur prestur, kirkjuprestur á Hólum í Hjaltadal og síðar príor í Möðruvallaklaustri frá 1501 eða fyrr og til æviloka.

Ætt Nikulásar er óþekkt þótt sumir hafi talið hann son Þormóðs Ólafssonar prests á Helgastöðum í Reykjadal. Hann var kirkjuprestur á Hólum um og eftir 1467 og prestur á Upsum í Svarfaðardal 1480-1491. Hugsanlega hefur hann orðið príor á Möðruvöllum skömmu eftir lát Sigurðar Jónssonar 1492 en hans er þó fyrst getið sem príors 1501.

Nikulás tók til sín fátæka stúlku, Þóreyju Jónsdóttur, og hafði hjá sér. Hún taldist þó ekki fylgikona hans og synir tveir sem hún átti, Þorbjörn og Þorsteinn, voru kallaðir Þóreyjarsynir þótt þeir væru almennt taldir synir Nikulásar. Þorsteinn var bóndi á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Sonur hans var séra Sigurður Þorsteinsson, sem átti að fylgikonu Guðrúnu dóttur Finnboga Einarssonar ábóta á Munkaþverá. Þau voru foreldrar Einars Sigurðssonar prests og skálds í Eydölum.

Nikulás dó 1521 og var þá um áttrætt. Eftirmaður hans var Jón Finnbogason, síðasti príor á Möðruvöllum.

Heimildir

breyta
  • „Möðruvallaklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Möðruvallaklaustur. Sunnudagsblað Tímans 13. ágúst 1967“.