Jón Finnbogason (d. 1546) var prestur í Múla í Aðaldal en varð príor í Möðruvallaklaustri 1524 og gegndi því embætti til dauðadags. Hann var síðasti príor klaustursins því eftirmaður hans hafði enn ekki verið skipaður þegar siðaskiptin urðu.

Jón var af miklum höfðingjaættum, sonur Finnboga Jónssonar Maríulausa, lögmanns og sýslumanns í Ási í Kelduhverfi, og konu hans Málmfríðar, dóttur Torfa Arasonar hirðstjóra og Akra-Kristínar. Guðrún móðursystir hans var fylgikona Einars Benediktssonar ábóta á Munkaþverá. Jóni príor er oft ruglað saman við bróður sinn og alnafna sem var prestur í Laufási við Eyjafjörð.

Jón var prestur í Múla 1481-1524 og var einn helsti klerkur norðanlands og kemur við ýmis skjöl. Hann var einnig officialis 1522 og dæmdi þá í málum Jóns Arasonar biskupsefnis og Helga Höskuldssonar ábóta á Þingeyrum. Hann varð svo príor á Möðruvöllum 1524 en Sigurður Jónsson príor hafði látist 1521. Sigurður sonur Jóns, sem kallaður var príorsson, var klausturhaldari á Möðruvöllum.

Fylgikona Jóns hét Rannveig Jónsdóttir. Synir þeirra, auk Sigurðar klausturhaldara, voru þeir Arngrímur Jónsson sýslumaður í Vaðlaþingi og síðar bóndi á Gunnsteinsstöðum í Langadal og Torfi prestur í Saurbæ. Með annarri konu átti Jón soninn Erlend, bónda og lögréttumann á Æsustöðum í Langadal.

Eftir að Jón dó 1546 var enginn príor á Möðruvöllum en en Jón Arason setti séra Björn Gíslason, kirkjuprest á Hólum og Hólaráðsmann, til að stýra klaustrinu. Stóð það fyrirkomulag til siðaskipta en eftir það, þegar klausturjarðirnar 67 komust í eigu konungs, tók Björn þær á leigu og var umboðsmaður 1554-1560. Kona hans var Málfríður milda Torfadóttir, sonardóttir Jóns príors.

Heimildir breyta

  • „Möðruvallaklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Möðruvallaklaustur. Sunnudagsblað Tímans 13. ágúst 1967“.