Newgatefangelsi
Newgatefangelsi er eitt af sögufrægustu fangelsum Bretlands. Það var fyrst byggt í Newgate, London, árið 1188 að skipun Hinriks II og síðan stækkað mikið 1236. Það var notað í ýmsum tilgangi, meðal annars fyrir glæpamenn sem biðu aftöku.
Gamla fangelsið var svo rifið og nýtt fangelsi byggt frá 1770 til 1778 samkvæmt teikningum George Dance. Í Gordonsuppþotunum 1780 var kveikt í húsinu og margir fangar fórust en um 300 sluppu. Það var endurbyggt tveimur árum síðar.
1783 voru gálgarnir í London færðir frá Tyburn og komið fyrir fyrir utan Newgatefangelsi sem varð til þess að þar söfnuðust reglulega saman stórir hópar áhorfenda að aftökum.
Frá 1868 voru aftökur framkvæmdar innan fangelsismúranna. 1902 var fangelsið rifið og dómshúsið Old Bailey reist á sama stað.
Fangelsið kemur fyrir í mörgum skáldsögum Charles Dickens, þar á meðal Barnaby Rudge, Glæstar vonir og Oliver Twist. Auk þess kemur það fyrir í Moll Flanders eftir Daniel Defoe og The Great Train Robbery eftir Michael Crichton. Hlutverki einnar álmu þess sem geðveikrahæli var lýst í miklum smáatriðum í The System of the World eftir Neal Stephensson.
Jörundur hundadagakonungur lenti tvisvar í Newgatefangelsi kringum 1820 vegna skulda, áður en hann var sendur til Tasmaníu.