Nas (Nasir Jones, f. 14. september 1973 í Queens, New York), einnig þekktur sem Nasty Nas, Nas Escobar og Nastradamus, er bandarískur tónlistarmaður og rappari.

Ævisaga breyta

Nas, sem heitir fullu nafni Nasir bin Olu Dara Jones, fæddist 14. september 1973 í Queens í New York. Hann er sonur Ann Jones og jazztónlistarmannsins Olu Dara, og á einn yngri bróður, Jabari (oft kallaður "Jungle").

Fjölskyldan bjó í skamman tíma í Brooklyn, en flutti svo til Queensbridge í Queens. Eftir nokkur ár skildu foreldrar Nas og hann ólst upp hjá móður sinni, ásamt bróður sínum.

Nas hætti í skóla eftir áttunda bekk og fór að selja fíkniefni á götum New York borgar, ásamt því að mennta sjálfan sig með lestri á afrískri sögu og menningu, Kóraninum, Biblíunni og Five Percent Nation.

Árið 1991 kom Nas fram á hljómplötu í fyrsta sinn. Það var í laginu "Live at the Barbeque" á plötu Main Source. Rapphæfileikar hans vöktu mikla athygli í rappheiminum og skömmu síðar bauð MC Serch honum að koma fram í lagi á plötu sem MC Serch var að vinna að.

Nas gerði MC Serch að umboðsmanni sínum og árið 1992 skrifaði Nas undir plötusamning við hljómplötuútgefandann Columbia Records. Margir óttuðust að þetta stóra útgáfufyrirtæki myndi spilla hinum hreina New York stíl sem Nas hafði tileinkað sér, en sá ótti reyndist ástæðulaus.

Fyrsta plata Nas, Illmatic, kom út árið 1994 við góðar undirtektir. Platan fékk afbragðsdóma og var sögð hreint meistaraverk. Hún er enn í dag talin ein allra besta plata í sögu rapptónlistar.

Þrátt fyrir góðar undirtektir seldist platan þó ekki eins vel og vonast hafði verið til. Nas skipti um umboðsmann og réð Steve Stoute í stað MC Serch.

Önnur plata Nas, It Was Written, kom út sumarið 1996. Hún var mun poppvænni en fyrri platan. Mörgum líkaði ekki hin nýja stefna sem Nas hafði tekið og átöldu hann fyrir að hafa vikið frá hinum hráa stíl sem hann hafði áður í von um að bæta söluna. Tvö lög af plötunni, "If I Ruled the World" (sem söngkonan Lauryn Hill úr The Fugees kemur fram í) og "Street Dreams", náðu þó miklum vinsældum og vöktu athygli fleiri tónlistarunnenda á Nas. Önnur athyglisverð lög á plötunni eru "The Message" og "I Gave You Power", sem segir sögu út frá sjónarhorni byssu.

Nas gekk í hljómsveitina The Firm, ásamt AZ, Foxy Brown og Cormega. Hljómsveitin gerði samning við útgáfufyrirtæki rapparans Dr. Dre, Aftermath Entertainment, og hóf upptökur á plötu hljómsveitarinnar. Cormega var síðar rekinn úr hljómsveitinni eftir að hafa neitað að gera samning við umboðsfyrirtæki Steve Stoute. Í stað hans kom rapparinn Nature.

Cormega varð eftir þetta bitur andstæðingur Nas og gagnrýndi hann, Steve Stoute og Nature margoft í lögum sínum.

Árið 1997 kom svo út plata The Firm, Nas, AZ, and Foxy Brown Present The Firm: The Album. Platan seldist vel, þrátt fyrir að hafa enga vinsæla smáskífu, en hlaut ekki góða dóma og sneru meðlimir hljómsveitarinnar sér að sólóferlum sínum.

Árið 1998 fór Nas að vinna að sinni þriðju sólóplötu, sem átti að heita I Am... The Autobiography og vera tvöföld plata. Nas reyndi að finna milliveg hinnar hráu Illmatic plötu og hinnar poppvænu It Was Written. Vinnslu plötunnar lauk í ársbyrjun 1999 og tónlistarmyndband fyrir lagið "Nas Is Like" var tekið upp. En seinni disk plötunnar var lekið á internetið og Nas neyddist til að minnka plötuna í einfalda plötu, sem hlaut nafnið I Am og var gefin út í apríl 1999.

Gert var tónlistarmyndband fyrir lagið "Hate Me Now", sem Sean Combs (einnig þekktur sem Puff Daddy og P. Diddy) kom fram á. Í myndbandinu voru Nas og Sean krossfestir á svipaðan hátt og Jesús, sem átti að vera táknrænt fyrir hvernig gagnrýnendur krossfestu Nas fyrir að verða of poppvænn. Eftir tökur á myndbandinu snerist Sean (sem er kaþólskur) hugur um krossfestingu sína og bað um að hún yrði fjarlægð úr myndbandinu. Upphaflega útgáfa myndbandsins var þó afhent MTV tónlistarsjónvarpsstöðinni og sýnd á stöðinni. Sean réðst í bræði sinni inn á skrifstofu Steve Stoute og er sagður hafa ráðist á hann og barið hann í höfuðið með flösku. Steve kærði atvikið en féll frá málinu eftir að hann og Sean sömdu um málið.

Columbia Records áætlaði að gefa seinni disk hinnar leknu plötu út í árslok 1999 undir nafninu Nastradamus, en á síðustu stundu ákváðu forsvarsmenn fyrirtækisins að Nas ætti að semja algerlega nýja plötu, sem kom svo út í nóvember. Platan fékk frekar slæma dóma, en þó náði lagið "You Owe Me" (sem söngvarinn Ginuwine kemur fram í) nokkrum vinsældum. Á plötunni er aðeins eitt af lögum upphaflegu plötunnar, "Project Windows" (sem Ronald Isley kemur fram í).

Síðar voru leknu lögin notuð ásamt nokkrum öðrum til að gera plötuna The Lost Tapes, sem kom út árið 2002.

Eftir útgáfu Nastradamus skiptust Nas og nokkrir aðrir þekktir rappara á "disslögum", þar sem þeir gagnrýndu og gerðu grín hver að öðrum. Þetta hófst með því að í laginu "Nastradamus" var lína ("If you wanna ball till you fall/I can help you with that") sem rapparinn Memphis Bleek tók sem móðgun þar sem hún virtist gera grín að honum, því í einu lagi hans segir hann "I'm'a ball till I fall". Memphis Bleek gerði gagnárás á Nas í laginu "My Mind Right".

Árið 2000 gaf Nas, ásamt nokkrum öðrum röppurum frá Queensbridge, út plötuna Nas and Ill Will Records Present QB's Finest. Á plötunni koma meðal annarra fram Mobb Deep, Nature, Littles, The Bravehearts og Cormega, sem hafði náð tímabundnum sáttum við Nas.

Á plötunni var gagnárás Nas á Memphis Bleek, þar sem hann nefndi flesta tónlistarmenn hljómplötuútgefandans Roc-a-Fella Records, þar á meðal Jay-Z. Jay-Z svaraði fyrir sig í lagi sínu "Takeover", þar sem hann sagði Illmatic einu góðu plötu Nas. Nas gerði gagnárás með laginu "Ether", þar sem hann sakar Jay-Z um að stela texta af plötum hins heitins rappara Notorious B.I.G., ásamt því að vera öfundsjúkur út í sér frægari rappara.

Lagið "Ether" var eitt af aðallögum næstu plötu hans, Stillmatic. Stillmatic var af mörgum talin marka endurkomu Nas, þar sem hún þótti líkari fyrstu plötu hans en hinum. Platan seldist vel og nokkur lög af henni komust á vinsældarlista. Athyglisvert lag á plötunni er "Rewind", sem segir sögu afturábak.

Jay-Z reyndi að svara fyrir "Ether" með laginu "Supa Ugly". Flestum þótti hann þó ganga of langt, m.a. með því sem jaðraði við hótunum við dóttur Nas. Að lokum sættust þó rappararnir tveir.

Á sama tíma lést móðir Nas úr krabbameini, sem tók mikið á hann og fékk hann nánast til að hætta í tónlistarbransanum. Árið 2002 gaf hann þó út plötuna God's Son, sem hlaut góðar undirtektir og afbragðsdóma og seldist vel. Lagið "I Can", sem inniheldur hluta úr "Fur Elise" eftir Beethoven, náði miklum vinsældum.

Sjöunda sólóplata Nas kom svo út í nóvember 2004. Það var tvöfalda platan Street's Disciple. Á plötunni koma meðal annarra fram faðir Nas, Olu Dara, og eiginkona hans, söngkonan Kelis, sem hann giftist í janúar 2005.

Nas á eina dóttur, Destiny, úr fyrra sambandi.

Hann rekur sitt eigin hljómplötufyrirtæki, Ill Will Records, sem er nefnt eftir góðum vini hans sem var myrtur.

Hljómplötur breyta

Sólóplötur breyta

Aðrar plötur breyta

Smáskífur breyta

  • "Halftime" (1992)
  • "The World is Yours" (1994)
  • "It Ain't Hard to Tell" (1994)
  • "If I Ruled the World (Imagine That)", ásamt Lauryn Hill úr The Fugees (1996)
  • "Street Dreams" (1996)
  • "Street Dreams [Remix]", ásamt R. Kelly (1996)
  • "Firm Biz", The Firm (Nas, AZ, Foxy Brown og Nature, ásamt Dawn Robinson) (1997)
  • "Nas is Like" (1999)
  • "Hate Me Now", ásamt Puff Daddy (1999)
  • "Nastradamus" (1999)
  • "U Owe Me", ásamt Ginuwine (2000)
  • "Da Bridge 2001", ásamt Mobb Deep, MC Shan, Marley Marl, Cormega og Nature (2000)
  • "Oochie Wally [Remix]", The Bravehearts (2001)
  • "Got Ur Self a Gun" (2001)
  • "One Mic" (2002)
  • "Made You Look" (2003)
  • "Made You Look [Remix]", ásamt Jadakiss og Ludacris (2003)
  • "I Can" (2003)
  • "Bridging the Gap", ásamt Olu Dara (2004)
  • "Thief's Theme" (2004)
  • "Just A Moment", ásamt Quan (2005)
  • "Hip-Hop Is Dead" (2006)
  • "Can't Forget About You", ásamt Chrisette Michele (2007)

Tenglar breyta