Narges Mohammadi
Narges Safie Mohammadi (persneska: نرگس صفیه محمدی; f. 21. apríl 1972)[1] er íranskur mannréttindasinni, vísindamaður og varaforseti Miðstöðvar verndara mannréttinda, sem er stýrt af mannréttindalögfræðingnum og Nóbelsverðlaunahafanum Shirin Ebadi.[2] Í maí árið 2016 var hún dæmd í Teheran til sextán ára fangelsis fyrir að stofna og stýra „mannréttindahreyfingu sem berst fyrir afnámi dauðarefsinga“.[3] Árið 2021, á meðan Mohammadi var enn í fangelsi, hlaut hún friðarverðlaun Nóbels fyrir „baráttu hennar gegn kúgun kvenna í Íran og fyrir mannréttindum og frelsi öllum til handa“.[4]
Narges Safie Mohammadi | |
---|---|
نرگس صفیه محمدی | |
Fædd | 21. apríl 1972 |
Þjóðerni | Írönsk |
Maki | Taghi Rahmani (g. 2001) |
Börn | 2 |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (2023) |
Bakgrunnur
breytaMohammadi fæddist í Zanjan og ólst upp í Qorveh (í Kúrdistan), Karaj og Oshnaviyeh.[5] Hún gekk í Alþjóðaháskóla Imams Khomeini, útskrifaðist með gráðu í eðlisfræði og varð verkfræðingur að atvinnu. Á háskólaárum sínum skrifaði hún tvær greinar í stúdentablöð þar sem hún talaði fyrir kvenréttindum og var handtekin á tveimur fundum pólitísku stúdentasamtakanna Tashakkol Daaneshjuyi Roshangaraan („Samtök upplýstra stúdenta“).[1][6] Hún var jafnframt virk í fjallgönguklúbbi en vegna pólitískrar starfsemi sinnar var henni síðar bannað að taka þátt í fjallgöngum.[1]
Mohammadi vann síðar sem blaðakona hjá ýmsum umbótasinnuðum fréttablöðum og birti safnbók stjórnmálaritgerða með titlinum Umbæturnar, stefnan og aðferðirnar.[6] Árið 2003 gekk hún til liðs við Miðstöð verndara mannréttinda, samtök sem stýrt er af Nóbelsverðlaunahafanum Shirin Ebadi.[1] Mohammadi varð síðar varaforseti samtakanna.[2]
Árið 1999 giftist Mohammadi blaðamanninum Taghi Rahmani, sem var stuttu síðar handtekinn í fyrsta sinn.[1][6] Rahmani flutti til Frakklands árið 2012 eftir að hafa afplánað alls fjórtán ára fangelsisvist en Mohammadi var áfram í Íran til að halda áfram mannréttindastarfi.[2] Mohammadi og Rahmani eiga tvíbura saman.[1][2]
Handtökur og málaferli
breytaMohammadi var handtekin í fyrsta sinn árið 1998 vegna gagnrýni hennar gegn írönsku ríkisstjórninni og varði einu ári í fangelsi.[6] Í apríl 2010 var henni stefnt til Íslamska byltingardómstólsins vegna aðildar hennar að Miðstöð verndara mannréttinda. Henni var sleppt í stuttan tíma gegn tryggingargjaldi að andvirði 50.000 Bandaríkjadala en hún var síðan handtekin aftur nokkrum dögum síðar og sett í hald í Evin-fangelsi.[1][7] Heilsu Mohammadi fór að hraka í fangavistinni og hún smitaðist af flogakenndum sjúkdómi sem olli því að hún missti reglulega stjórn á vöðvum sínum. Henni var sleppt eftir einn mánuð og henni leyft að fara á sjúkrahús.[7]
Mohammadi var aftur sótt til saka í júlí 2011[1] og sakfelld fyrir að „beita sér gegn þjóðaröryggi, eiga aðild að Miðstöð verndara mannréttinda og fyrir áróður gegn stjórnvöldum“.[7] Í september var hún dæmd til ellefu ára fangelsisvistar. Mohammadi sagðist aðeins hafa frétt af dómnum í gegnum lögfræðinga sína og að henni hefði borist „fordæmalaus 23 blaðsíðna dómur útgefinn af dómstólnum þar sem þeir líktu mannréttindastarfi mínu ítrekað við tilraunir til að kollvarpa stjórninni.“[7] Áfrýjunardómstóll staðfesti dóminn í mars 2012 en stytti fangavistina í sex ár.[8] Mohammadi var handtekin til að hefja afplánun þann 26. apríl.[2]
Utanríkisráðuneyti Bretlands mótmælti dómnum og kallaði hann „annað sorglegt dæmi um tilraunir íranskra stjórnvalda til að þagga niður í hugrökkum verndurum mannréttinda.“[7] Amnesty International skilgreindi Mohammadi sem samviskufanga og krafðist tafarlausrar lausnar hennar.[9] Blaðamenn án landamæra gáfu út beiðni í þágu Mohammadi á níu ára dánarafmæli ljósmyndarans Zahra Kazemi, sem lést í Evin-fangelsi, og lýstu því yfir að líf Mohammadi í fangavist væri í „sérstakri hættu“.[10] Í júlí 2012 kallaði alþjóðlegur hópur þingmanna eftir lausn hennar, þar á meðal bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Mark Kirk, kanadíski fyrrum ríkissaksóknarinn Irwin Cotler, breski þingmaðurinn Denis MacShane, ástralski þingmaðurinn Michael Danby, ítalski þingmaðurinn Fiamma Nirenstein og litáíski þingmaðurinn Emanuelis Zingeris.[11]
Mohammadi var sleppt úr fangelsi þann 31. júlí 2012.[12]
Þann 31. október 2014 flutti Mohammadi tilfinningaþrungna ræðu við gröf Sattar Beheshti og sagði:
Hvernig má það vera að þingmenn séu að stinga upp á áætlun um stuðning við dyggðir og forvarnir gegn löstum, en enginn sagði orð fyrir tveimur árum þegar saklaus mannvera að nafni Sattar Behesti lést við pyndingar í höndum yfirheyrara síns? |
Myndbandið af ræðu Mohammadi náði mikilli útbreiðslu á netinu og á samfélagsmiðlum, sem leiddi til þess að henni var stefnt til fangelsisdómstóls Evin.
Í stefnunni sem ég fékk 5. nóvember 2014 stóð að ég yrði að gefa mig fram ‚vegna ákæra‘ en það er engin frekari skýring um þessar ákærur, sagði Mohammadi.[13] |
Mohammadi var handtekin á ný þann 5. maí 2015 á grundvelli nýrra ákæra.[14] Byltingardómstóllinn dæmdi hana í fimmtán ára fangelsi fyrir að „stofna ólögleg samtök“ með Legam (herferðar hennar til að afnema dauðarefsingar), fimm ár fyrir „samkomur og samverknað gegn þjóðaröryggi“ og eitt ár fyrir „áróður gegn kerfinu“ vegna viðtala hennar með alþjóðafjölmiðlum og fundi hennar í mars 2014 með þáverandi utanríkismálafulltrúa Evrópusambandsins, Catherine Ashton.[15] Í janúar 2019 var tilkynnt að Mohammadi hefði farið í hungurverkfall ásamt bresk-írönskum meðfanga sínum, Nazanin Zaghari-Ratcliffe, til að mótmæla því að þeim væri neitað um aðgang að heilsugæslu í Evin-fangelsi.[16] Í júlí 2020 sýndi Mohammadi sjúkdómseinkenni vegna sýkingar af COVID-19 en henni virtist hafa batnað í ágúst.[17]
Mohammadi var sleppt úr fangelsi þann 8. október 2020.[18]
Þann 27. febrúar 2021 birti Mohammadi myndband á samfélagsmiðlum þar sem hún greindi frá því að henni hefði verið stefnt til dómstóla tvisvar í desember vegna máls sem hefði verið höfðað gegn henni á meðan hún var enn í fangelsi. Mohammadi sagðist hafa neitað að gefa sig fram til dómstóla og að hún myndi óhlýðnast öllum ákvörðunum sem yrðu teknar. Í myndbandinu lýsti hún kynferðisofbeldi og annarri illri meðferð sem hún sjálf og aðrar konur hefðu sætt í fangelsunum og sagði stjórnvöld enn ekki hafa brugðist við kvörtun þess efnis sem hún hefði sent þann 24. desember. Nýja kæran gegn Mohammadi snerist um mótmælaaðgerðir hennar ásamt öðrum pólitískum föngum í Evin-fangelsi vegna drápa og handtaka öryggissveita á mótmælendum í nóvember 2019.[19]
Mohammadi skrifaði formála að ársskýrslu samtakanna Iran Human Rights um dauðarefsingar í Íran í mars 2021. Hún skrifaði:
Aftökur á fólki á borð við Navid Afkari og Ruhollah Zam á undanförnu ári hafa verið ógagnsæjustu aftökur í Íran. Dæming dauðarefsingar gegn Ahmadreza Djalali er einn ranglátasti dómurinn og gaumgæfa verður ástæður þessara dauðadóma. Þetta fólk var dæmt til dauða eftir að þeim hafði verið haldið í einangrunarvist og það látið sæta hræðilegum sálrænum og andlegum pyntingum. Þess vegna tel ég dómsferlið ekki sanngjarnt eða réttlátt. Ég sé sakborninga sem haldið er í einangrun og þeir neyddir til að gefa ósannar og falskar játningar sem eru síðan notaðar sem sönnunargögn við útgáfu þessara dóma. Þess vegna hef ég þungar áhyggjur af nýlegum handtökum í Sistan, Balúkistan og Kúrdistan, og ég vona að stofnanir sem beita sér gegn dauðarefsingum fylgist grannt með föngunum því ég óttast að við stöndum frammi fyrir annarri hrinu aftaka á næsta ári.[20] |
Í maí dæmdi glæpadómstóll í Teheran Mohammadi til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar, 80 svipuhögga og tveggja sekta fyrir ákæruliði eins og að „dreifa áróðri gegn kerfinu“. Fjórum mánuðum síðar fékk hún boð um að gefa sig fram til að hefja afplánun en hún svaraði þeim ekki þar sem hún taldi dóminn ranglátan.[21]
Í nóvember 2021 var Mohammadi handtekin í Karaj í Alborz-héraði á meðan hún var viðstödd minningarathöfn fyrir Ebrahim Ketabdar, sem var drepinn af írönskum öryggissveitum í mótmælum í nóvember 2019.[21]
Á tíma mótmælanna sem hófust vegna dauða Möhsu Amini í haldi írönsku siðgæðislögreglunnar árið 2022 gaf Narges Mohammadi út skýrslu þar sem farið var yfir kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi gegn konum. Í janúar 2023 gaf hún út skýrslu þar sem farið var yfir aðstæður kvenna í Evin-fangelsi, meðal annars lista yfir 58 fanga og yfirheyrsluferlin og pyntingarnar sem þær hefðu verið beittar. 57 kvennanna höfðu varið samtals 8.350 dögum í einangrunarvist. 56 þeirra voru dæmdar til 3.300 mánuða samtals.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Muhammad Sahimi (10. maí 2012). „Nationalist, Religious, and Resolute: Narges Mohammadi“. PBS. Afrit af uppruna á 29. júní 2012. Sótt 31. október 2012.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Saeed Kamali Dehghan (26. apríl 2012). „Kurdish human rights activist Narges Mohammadi arrested“. The Guardian. Afrit af uppruna á 15. júní 2012. Sótt 31. október 2012.
- ↑ Saeed Kamali Dehghan (24. maí 2016). „UN condemns 16-year jail sentence for Iranian activist Narges Mohammadi“. The Guardian. Sótt 11. janúar 2019.
- ↑ Hallgrímur Indriðason (6. október 2023). „Narges Mohammadi fær friðarverðlaun Nóbels“. RÚV. Sótt 6. október 2023.
- ↑ https://english.sawtbeirut.com/world/iranian-human-rights-activist-narges-mohammadi-gets-nobel-peace-prize/
- ↑ 6,0 6,1 6,2 6,3 „Narges Mohammadi, from Iran, of the international Alexander Langer award 2009“. Alexander Langer Foundation. 18. júní 2009. Afrit af uppruna á 15. júní 2012. Sótt 31. október 2012.
- ↑ 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 Saeed Kamali Dehghan (28. september 2011). „Iranian activist Narges Mohammadi jailed for 11 years“. The Guardian. Afrit af uppruna á 8. ágúst 2012. Sótt 31. október 2012.
- ↑ Saeed Kamali Dehghan (7. mars 2012). „Iran steps up crackdown on journalists and activists“. The Guardian. Afrit af uppruna á 23. júlí 2012. Sótt 31. október 2012.
- ↑ „Urgent Action: human rights Defender imprisoned“. Amnesty International. 30. apríl 2012. Sótt 3. maí 2012.
- ↑ „Lives of several imprisoned journalists and netizens in danger“. Blaðamenn án landamæra. 10. júlí 2012. Afrit af uppruna á 13. september 2012. Sótt 31. október 2012.
- ↑ „International Lawmakers Call on Iran to Release Narges Mohammadi“. kirk.senate.gov. 26. júlí 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. október 2012. Sótt 31. október 2012.
- ↑ „Iran: List of human rights defenders behind bars“. Worldwide Movement for Human Rights. Sótt 13. júní 2017.
- ↑ „Iran: Judicial Harassment of Human Rights Activist Narges Mohammadi“. www.gc4hr.org. Sótt 13. júní 2017.
- ↑ Erdbrink, Thomas (5. maí 2015). „Iran Arrests Prominent Rights Activist“. The New York Times. Sótt 13. júní 2017.
- ↑ „Iran Human Rights Defenders Report“ (PDF). Iran Human Rights. 12. nóvember 2020. Sótt Mar 10, 2021.
- ↑ „Zaghari-Ratcliffe to go on hunger strike in Iranian jail“. The Irish Times. 3. janúar 2019. Sótt 11. janúar 2019.
- ↑ „Iran frees activist Narges Mohammadi, cuts her sentence“. Deutsche Welle. 8. október 2020. Sótt 1. maí 2021.
- ↑ „Iran frees prominent rights activist, news agency reports“. Reuters. 8. október 2020.
- ↑ „2020 Annual Report on the Death Penalty in Iran“ (PDF). Iran Human Rights. 30. mars 2021. Sótt 10. apríl 2021.
- ↑ „Narges Mohammadi: Violence of Death Penalty is Worse Than War“. Iran Human Rights. 30. mars 2021. Sótt 10. apríl 2021.
- ↑ 21,0 21,1 „Iran: Release arbitrarily detained rights activist at imminent risk of flogging“. Amnesty International (enska). 18. nóvember 2021. Sótt 23. nóvember 2021.