Núnavút (inuítamál: ᓄᓇᕗᑦ) er stærsta og yngsta hérað Kanada. Það var skilið frá Norðvesturhéruðunum þann 1. apríl 1999 og var það fyrsta meiriháttar breytingin á stjórnsýsluskipan Kanada frá því að Nýfundnaland var innlimað árið 1949. Núnavút þýðir „land okkar“ á inúktitút.

Lega Núnavút.
Fáni Núnavút.
Bærinn Pangnirtung, Nunavut.
Túndra í Kugluktuk, Nunavut.

Núnavút er 1.932.255 ferkílómetrar að stærð. Það nær yfir stóran hluta fastalands Norður-Kanada og flestar heimskautaeyjarnar þar fyrir norðan, sem gerir það að fimmta stærsta sjálfstjórnarhéraði í heimi. Núnavút er eitt strjálbýlasta landsvæði heims. Íbúarnir eru taldir vera rúmlega 39.000 (2019), flestir inúítar, og búa dreift á svæði sem er á stærð við Vestur-Evrópu, eða um 0,015 íbúar á ferkílómetra. Í Núnavút er nyrsta varanlega byggða ból í heimi, Alert.

Bærinn Iqaluit (áður Frobisher Bay) á Baffinslandi, á austanverðu svæðinu, var kosinn höfuðstaður héraðsins í atkvæðagreiðslu árið 1995. Aðrir helstu þéttbýlisstaðir eru Rankin Inlet og Cambridge Bay. Þrjár af tíu stærstu eyjum í heimi (Baffinsland, Viktoríueyja og Ellesmere-eyja) tilheyra Núnavút að öllu eða mestu leyti, auk fjölda smærri eyja. Hæsti tindurinn er Barbeau Peak (2.616 m) á Ellesmere-eyju.

Saga breyta

Inuítar hafa búið á svæðinu í að minnsta kosti 4000 ár og fornleifafundir benda til þess að þeir hafi átt samskipti við norræna menn eftir að Grænland byggðist og jafnvel fyrr. Fyrstu rituðu heimildir um Núnavút eru frá 1576, þegar Englendingurinn Martin Frobisher kom þangað í leit að Norðvesturleiðinni.

Hudson Bay-verslunarfélagið setti upp verslunarstöðvar á allmörgum stöðum á 19. og 20. öld og eru sumar þeirra enn til sem þorp. Um og eftir miðja 20. öld hvatti Kanadastjórn inuíta mjög til þess að taka sér fasta búsetu og kom þá um leið upp ýmiss konar þjónustu í byggðakjörnum. Nú er byggðin í Núnavút að mestu bundin við bæi og þorp. Stærstu bæirnir, auk Iqaluit, eru Rankin Inlet og Arviat, báðir með rúmlega 2000 íbúa.

Hugmyndir um að inuítar fengju hluta af Norðvesturhéruðunum sem sérstakt sjálfstjórnarhérað kviknuðu árið 1976 og árið 1982 var stofnun slíks héraðs samþykkt í atkvæðagreiðslu þar. Núnavút hlaut svo formlega sjálfstjórn 1. apríl 1999. Á þingi Núnavút sitja 19 þingmenn sem kosnir eru einstaklingskosningu því engir flokkar eru þar starfandi. Þingið kýs forsætisráðherra. Íbúar Núnavút kjósa einn fulltrúa á Kanadaþing og er héraðið því víðáttumesta kjördæmi í heimi.

Heimildir breyta