Nólsey

(Endurbeint frá Nólsoy)

Nólsey (færeyska: Nólsoy, fyrr líka Nölsoy; fornnorræna: Norsey) er eyja í miðjum Færeyjum, austur af Þórshöfn á Straumey, og skýlir höfninni í Þórshöfn vel fyrir veðrum úr austri. Hún er 10,3 km² að stærð og 9 km á lengd. Nólsey er láglendust Færeyja og þar er aðeins eitt fjall sem heitir Høgoggj. Hæsti tindur eyjarinnar heitir Eggjarklettur og er 371 metrar að hæð yfir sjávarmáli.

Kort af Nólsey.
Nólseyjarþorp. Hvalbeinshliðið var reist þegar Ingiríður Danadrottning heimsótti Nólsey.

Á eynni er aðeins ein byggð sem einnig heitir Nólsoy og þar bjuggu 245 manns 1. janúar 2011 en voru flestir um 350 árið 1970. Byggðin er á norðanverðri eynni, þar sem hún er mjóst og lægst, raunar svo mjó að í miklum austanstormum brimar stundum þvert yfir eiðið í miðju þorpinu. Nólsey var áður sjálfstætt sveitarfélag en sameinaðist Þórshöfn árið 2004. Aðeins 20 mínútna sigling er til Þórshafnar og allmargir Nólseyingar stunda vinnu þar en fara á milli kvölds og morgna.

Syðst á eynni er vitinn Borðan, byggður 1893. Um hann skrifaði William Heinesen bókina Turninn á heimsenda. Um tíma bjuggu þrjár fjölskyldur í vitavarðarhúsinu og þar voru þá tíu börn, og var skólahald þá til skiptis þar og í Nólseyjarþorpi. Vestan á eynni er eyðibyggðin Korndalur. Þar eru rústir sem kallast Prinsessurústirnar. Sagt er að þar hafi búið skosk konungsdóttir sem hafi strokið til Færeyja með elskhuga sínum. Korndalur fór í eyði á 18. öld.

Í Nólsey er haldin árleg hátíð sem kallast Ovastefna, kennd við Ove Joensen frá Nólsey, ævintýramann sem vann sér það meðal annars til frægðar að róa frá Færeyjum til Danmerkur á færeyskum árabát árið 1986 en drukknaði í Skálafirði ári síðar. Þekktasti Nólseyingurinn er þó þjóðhetjan Nólseyjar-Páll, sem barðist gegn dönsku einokunarversluninni í upphafi 19. aldar.

Á Nólsey er stærsta stormsvölubyggð í heimi.

Nólsey