Marjorie Bruce
Marjorie Bruce (desember 1296 – 1316?) eða Marjorie de Brus var skosk konungsdóttir og móðir Róberts 2. Skotakonungs, fyrsta konungsins af Stúart-ættinni.
Marjorie var dóttir Róberts (the) Bruce, jarls af Carrick og síðar Skotakonungs og fyrri konu hans, Ísabellu af Mar, sem lést nítján ára að aldri, skömmu eftir fæðingu Marjorie. Árið 1302 giftist Róbert aftur aðalsjómfrú að nafni Elizabeth de Burgh, sem samkvæmt sumum heimildum var aðeins um 13 ára að aldri, en aðrar heimildir telja hana þó nokkrum árum eldri. Hann var krýndur konungur Skotlands 27. mars 1306 og Marjorie varð þá prinsessa af Skotlandi en naut þeirrar tignar ekki lengi því að á þessum árum voru Skotar að berjast fyrir sjálfstæði sínu frá Englandi og í júní sama ár tapaði faðir hennar orrustu við Játvarð 1. Englandskonung. Hann sendi þá konu sína, dóttur og tvær systur sínar til norðurhluta Skotlands til að tryggja öryggi þeirra en jarlinn af Ross sveik þær í hendur Játvarðs, sem hélt þeim föngnum á mismunandi stöðum í Englandi.
Marjorie var send í nunnuklaustrið í Watton í Jórvíkurskíri og var þar í um átta ár, eða þar til Játvarður 2. sleppti henni úr haldi um 1314, hugsanlega í skiptum fyrir enska aðalsmenn sem teknir höfðu verið til fanga í orrustunni við Bannockburn þá um sumarið. Í þeim bardaga hafði Walter Stewart, stallari Skotlands, þótt sýna sérlega góða framgöngu og fékk hönd hinnar ungu konungsdóttur að launum.
Snemma árs 1316 (líklega 2. mars) féll Marjorie af hestbaki nálægt Paisley í Renfrew-skíri í Skotlandi. Hún var þá komin að því að fæða barn. Samkvæmt einni útgáfu sögunnar fékk hún fæðingarhríðir við fallið, var flutt í klaustrið í Paisley og dó þar nokkrum klukkustundum síðar eftir að hafa fætt son. Önnur útgáfa segir að hún hafi hálsbrotnað og dáið samstundis en barnið hafi verið tekið með keisaraskurði og bjargað. Marjorie varð nítján ára, rétt eins og móðir hennar. Hún er grafin í klaustrinu.
Róbert, sonur hennar, var ríkisarfi frá 1318 til 1324 en þá eignaðist afi hans son, Davíð, með seinni konu sinni. Davíð var konungur 1329-1371 en dó barnlaus og þá tók Róbert við. Hann var fyrsti konungur Skota af Stúart-ætt og Marjorie þar með ættmóðir hennar.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Marjorie Bruce“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. maí 2010.