Marilyn French

Marilyn French (21. nóvember 1929 - 2. maí 2009) var bandarískur rithöfundur og róttækur feministi. Þekktasta verk hennar er án efa skáldsagan The Women's Room sem kom út árið 1977 og í íslenskri þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur undir heitinu Kvennaklósettið nokkrum árum síðar.

Fjölskylda og menntunBreyta

Marilyn fæddist í Brooklyn í Bandaríkjunum og foreldrar hennar voru E. Charles Edwards verkfræðingur og Isabel Hazz Edwards sem starfaði í verslun. Á sínum yngri árum var Marilyn blaðamaður og ritaði greinar í fréttabréf hverfisins þar sem hún bjó. Hún spilaði einnig á píanó og átti sér draum um að verða tónskáld. Hún lauk BA-gráðu í heimspeki og enskum bókmenntun árið 1951 frá Hofstra University og MA-gráðu í ensku frá sama skóla árið 1964. Hún hóf síðar doktorsnám við Harvard háskóla í Bandaríkjunum og hlaut doktorsgráðu þaðan árið 1972.

Árið 1950 giftist Marilyn laganemanum Robert M. French Jr. og eignuðust þau tvö börn. Hjónin skildu árið 1967.

RitstörfBreyta

Verk Marilyn French fjalla um stöðu kvenna en Marilyn taldi kúgun kvenna afleiðingu af karlægum heimi. Eitt verka hennar, Beyond Power: On Women, Men and Morals (1985), er nokkurs konar söguleg athugun á áhrifum feðraveldisins. „Markmið mitt í lífinu er að breyta öllu félagslegu og efnahagslegu skipulagi vestrænnar siðmenningar og gera veröldina femínískari“ lýsti hún eitt sinni yfir.

Fyrsta og þekktasta skáldsaga Marilyn var Kvennaklósettið (1977) sem seldist í meira en 20 milljónum eintaka og var þýdd á 20 tungumál. Sagan segir frá lífi millistéttarkonunnar Miru og vinkvenna hennar á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, þar á meðal Val sem er róttækur femínisti. Sagan lýsir smáatriðum í lífi kvenna á þessum tíma og femínistahreyfingu þessa tímabils í Bandaríkjunum. Bókin vakti mikið umtal þegar hún kom út og í henni þóttu koma fram róttæk viðhorf. Í bókinni er m.a. haft eftir sögupersónunni Val: „allir menn eru nauðgarar, og það er allt sem þeir eru. Þeir nauðga okkur með augum sínum, lögum sínum og siðum.“ Náin vinkona Marilyn, feministinn Gloria Steinem, taldi áhrif bókarinnar á réttindabaráttu kvenna jafnast á við þau áhrif sem skáldsaga Ralph Ellison Invisible Man (1952) hafði á réttindabaráttu svartra 25 árum fyrr.

Af þekktum verkum hennar sem komu út síðar á ferlinum var From Eve to Dawn: A History of Women. Bókin kom út í hollenskri þýðingu árið 1995 en var ekki gefin út í enskri þýðingu fyrr en 2002 og 2003. Florence Howe útgefandi bókarinnar sagði að með verkum Marilynar hefðu konur í fyrsta sinn eignast sögu og að heimurinn hafi breyst og Marilyn hafi hjálpaði til við að breyta honum.

Marilyn greindist með krabbamein í vélinda árið 1992 og byggðist bók hennar A Season in Hell: A Memoir (1998) á reynslu hennar af veikindunum. Hún sigraðist á krabbameininu en lést af völdum hjartaáfalls árið 2009, þá 79 ára gömul.

HeimildBreyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Marilyn French“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 17. september 2019.