Montesúma 2.
Montesúma 2. (f. u.þ.b. 1466 – d. 29. júní 1520) var níundi keisari eða tlatoni asteska borgríkisins Tenochtitlán, frá 1502 til 1520. Fyrstu kynni frumbyggjaþjóða Mið-Ameríku og Evrópumanna urðu á valdatíð hans. Spænski landvinningamaðurinn Hernán Cortés tók Montesúma til fanga og lét síðan drepa hann þegar Spánverjar hófu landvinninga sína gegn Astekaveldinu árið 1520.

Æviágrip Breyta
Á valdatíð Montesúma náði Astekaveldið hápunkti landfræðilegrar stærðar sinnar. Montesúma herjaði á nágrannaþjóðir sínar og þandi veldi sitt út alla leið suður til Soconusco (landsvæðis sem nú er á landamærum Mexíkó og Gvatemala). Í þessum hernaði innlimaði Montesúma þjóðir Zapoteka og Tlapaneka inn í Astekaveldið. Montesúma breytti þjóðfélagskerfi Astekaveldisins, sem áður hafði byggst á verðleikaræði, og jók forréttindi aðalsstéttarinnar með því að banna almúganum að vinna í keisarahöllunum.
Montesúma fékk fregnir af komu aðkomumanna á meginlandið árið 1517. Árið 1519 fylgdist hann af athygli með framsókn landvinningaliðs Hernáns Cortés og lét senda honum gjafir sem hann vonaðist til þess að myndu friðþægja Spánverjana og halda þeim í burtu.[1] Gjafirnar höfðu þveröfug áhrif og græðgin í gull varð Spánverjum aðeins enn frekari hvati til þess að komast yfir auðæfi Astekaveldisins.
Montesúma og hirðmenn hans tóku á móti Cortés og Spánverjunum þegar þeir komu til Tenochtitlán. Samkvæmt sumum heimildum hélt Montesúma að Cortés væri asteski guðinn Quatzalcoatl, sem hafði samkvæmt goðsögnum siglt út á haf en átti samkvæmt spádómi að snúa aftur einn daginn.[1][2] Montesúma bauð Spánverjunum að gista í keisarahöllinni og þar dvöldu þeir í nokkra mánuði sem gestir hans. Cortés reyndi að fá Montesúma til þess að gangast undir kristna trú en Montesúma neitaði að láta af trú forfeðra sinna.[1]
Spánverjarnir níddust á gestrisni Montesúma, tóku hann brátt í gíslingu og héldu honum í stofufangelsi í höllinni. Andúð Astekanna á Spánverjum færðist í aukana og þegar Cortés var fjarverandi gerðu borgarbúar uppreisn gegn spænska hernámsliðinu. Í uppreisninni frömdu Spánverjar fjöldamorð á Astekum í hofi þeirra í Tenochtítlan. Montesúma sjálfur lét lífið í uppreisninni en heimildum ber ekki saman um hvernig dauða hans bar að. Samkvæmt sumum heimildum grýttu Astekarnir sjálfir Montesúma til dauða þegar hann steig fram og reyndi að friðþægja uppreisnarmennina.[1] Samkvæmt þessari frásögn fékk Cortés Montesúma til þess að skipa þegnum sínum að láta af uppreisninni gegn Spánverjunum, en Astekarnir höfðu þá valið sér nýjan keisara þar sem þeir litu á Montesúma sem lepp Spánverja. Samkvæmt öðrum heimildum kyrktu Spánverjarnir hann sjálfir.[3]
Sagnfræðileg umfjöllun um Montesúma hefur ætíð litast af ósigri hans gegn Spánverjum og margar heimildir útmála hann því sem veiklunda og óákveðinn leiðtoga.[3] Flestar heimildirnar um valdatíð Montesúma eru hins vegar hlutdrægar og því hefur reynst erfitt að skilja ákvarðanir Montesúma í stríðinu við Spán.
Tilvísanir Breyta
- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Montezuma, konungur Aztekanna“. Vísir. 5. mars 1944. Sótt 19. desember 2018.
- ↑ Berglind Gunnarsdóttir (12. september 1998). „Fulltrúi sólguðsins felldur“. Morgunblaðið. Sótt 19. desember 2018.
- ↑ 3,0 3,1 „Aztekaríkið, III“. Tíminn. 18. ágúst 1963. Sótt 19. desember 2018.
Fyrirrennari: Ahuitzotl |
|
Eftirmaður: Cuitláhuac |