Ljósavatn er sveitabær og kirkjustaður í Ljósavatnsskarði í Suður-Þingeyjarsýslu, skammt frá samnefndu stöðuvatni. Bærinn er í austanverðu mynni skarðsins, þar sem það mætir Bárðardal.

Þekktasti ábúandi Ljósavatns er Þorgeir Ljósvetningagoði, lögsögumaður og höfðingi, sem þar bjó um árið 1000 og var sonarsonur Þóris Grímssonar, landnámsmanns í Ljósavatnsskarði. Þegar kristnir menn og heiðnir deildu á Alþingi árið 1000 var Þorgeiri falið að skera úr deilunni og úrskurðaði hann, eftir að hafa legið undir feldi, að allir landsmenn skyldu taka skírn og gerast kristnir. Þjóðsagan segir að sjálfur hafi hann varpað goðalíkneskjum sínum í Goðafoss þegar heim kom.

Kirkja var á Ljósavatni frá fornu fari, helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Hún var bændakirkja í 900 ár en var afhent söfnuðinum 1914. Árið 2000 var reist ný kirkja á Ljósavatni, Þorgeirskirkja, til minningar um 1000 ára afmæli kristnitökunnar, og er hún helguð Þorgeiri Ljósvetningagoða. Eldri kirkja er á staðnum, reist á árunum 1892-1893.

Heimildir

breyta
  • „Frá því, er kristni kom til Íslands. Íslendingabók.
  • Þorgeirskirkja reist að Ljósavatni í tilefni kristnitökuafmælisins. Morgunblaðið, 31. ágúst 1989“.
  • „Ásatrúarmenn hyggjast blóta við Goðafoss. Morgunblaðið, 3. ágúst 2000. Sótt í gagnasafn mbl.is 5. nóvember 2010“.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.