Leikhúsið að Möðruvöllum

Leikhúsið að Möðruvöllum í Hörgárdal er félags- og safnaðarheimili í eigu Amtmannsetursins á Möðruvöllum. Leikhúsið er á jarðamörkum Möðruvalla I (í eigu Prestsetrasjóðs) og Möðruvalla II (í eigu Landbúnaðarháskóla Íslands). Samkvæmt landskrá Fasteignamats ríkisins er byggingaár Leikhússins 1880, en líklega er það byggt aðeins seinna. Húsið er um 120 fermetrar á tveimur hæðum.

Saga breyta

Árið 1880 var stofnaður gagnfræðaskóli á Möðruvöllum, sem var undanfari Menntaskólans á Akureyri. Á tímum skólans bjuggu á Möðruvöllum margir merkismenn sem unnu mikilvægt brautryðjendastarf í skólamálum og á sviði náttúruvísinda. Möðruvallaskóli var þó einungis starfræktur í 22 ár því þegar skólahúsið brann árið 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar. Einu sýnilegu minjar skólans sem eftir eru á Möðruvöllum er s.k. Leikhús sem var byggt sem leikfimihús og pakkhús.

Endurgerð hússins breyta

Framkvæmdir við að bjarga húsinu frá eyðileggingu hófust 1992 en lágu síðan nánast niðri þar til vorið 2002, þegar ákveðið var að hefja aftur endurbyggingu. Því verki lauk að mestu sumarið 2007. Framkvæmdin hefur verið á höndum Amtmannssetursins á Möðruvöllum en það er sjálfseignarstofnun sem sett á fót 1. mars 2006 í þeim tilgangi að endurreisa merkar byggingar á Möðruvöllum í Hörgárdal. Jafnframt er Amtmannsetrinu ætlað að koma á framfæri sögu staðarins á lifandi hátt með því að skapa aðlaðandi og frjótt umhverfi fyrir skóla, námsfólk og ferðamenn sem áhuga hafa á stjórnmála-, menningar- og kirkjusögu, náttúruvísindum og landbúnaði.

Það eru Arnarneshreppur, Landbúnaðarháskóli Íslands, Húsafriðunarsjóður, Sóknarnefnd Möðruvallaklausturskirkju, Menningarsjóður KEA og Menntaskólinn á Akureyri sem hafa fram að þessu kostað endurgerð og uppbyggingu Leikhússins.

Notkun í dag breyta

Leikhúsið er í dag félags- og safnaðarheimili sem rekið er af Amtmannsetrinu á Möðruvöllum. Í framtíðinni er því ætlað að vera gestamóttaka fyrir ferðamenn og minjasafn um Möðruvallaskóla. Fyrirhugað er að koma þar fyrir munum sem tengjast Möðruvallaskóla (gamlar ljósmyndir, ýmis rit og handverk). Á efri hæð hússins er góð fundaraðstaða fyrir smærri fundi sem ýmsir í byggðarlaginu nýta sér. Seinna mun hluti starfseminnar verða fluttur í sérstakt þjónustuhús sem stendur nálægt Leikhúsinu.