Le Tombeau des Champignac

Le Tombeau des Champignac (Íslenska Grafhvelfingar Sveppaborgar) er þriðja bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2007 og er sú þriðja í röðinni. Höfundar sögunnar eru þeir Yann og Tarrin, en sá síðarnefndi er teiknar verksins. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.

Söguþráður breyta

Sagan hefst í fjöllum Nepals, þar sem hópi undir stjórn hrokafulla auðkýfingsins Hr. Zanskars mistekst að klífa þverhníptan tind. Hr. Zanskar bregst ókvæða við, en einn leiðangursmanna segist hafa lausnina… Sá leiðangursmaður reynist vera Bitla.

Næst víkur sögunni til seturs Sveppagreifans þar sem Svalur og Valur eru í heimsókn. Bitla kemur og reynir að sannfæra greifann um að taka þátt í hinu dularfulla leitarverkefni í Nepal, en hann segir þremenningunum frá undarlegum atburðum á setrinu, þar sem hann hafi uppgötvað miklar neðanjarðarhvelfingar sem forfaðir hans útbjó fyrir nærri 200 árum. Í miðri frásögninni verða þau vör við Sfinxinn, kynjskepnu í kattarmynd, sem virðist hafa hafst við í grafhvelfingunni frá því að henni var lokað.

Félagarnir hafa ekki fyrr lokið við að skoða hvelfinguna en hún hrynur og drjúgur hluti setursins skemmist í leiðinni. Sveppagreifinn sér fram á mikinn endurbyggingarkostnað og fellst á að taka þátt í leiðangri hr. Zanskars í leit að múmíu hinnar ægifögru Ísprinsessu. Sagan hermir að tíbetskur konungur hafi girnst Ísprinsessuna, en hún neitað honum. Í hefndarskyni hafi stúlkunni verið fórnað guðunum, en líkami hennar varðveittur í fimbulkulda svo hann eyddist ekki.

Hópurinn flýgur til Nepal á einu af loftförum Zorglúbbs, sem greifinn átti í geymslu sinni. Þau eru öll léttklædd, enda búin að fá sprautu af efnablöndu Sveppagreifans sem gerir fólk ónæmt fyrir kulda. Vegna ýmissa skakkafalla tekur ferðin þó lengri tíma en ætlað var og litlu má muna að þau krókni í brunagaddinum þegar áhrifa efnisins hættir að gæta.

Gröf Ísprinsessunnar reynist tóm, en greifinn uppgötvar að forfaðir hans hafði verið á undan þeim. Þau halda aftur heim til setursins og kanna rústir grafhvelfingarinnar betur. Þar finna þau múmíu prinsessunnar. Forfaðir greifans hafði heillast af henni og fundið leið til þess að vekja hana til lífsins með hjálp sérstakra sveppa. Lyfið hafi hann prófað á egypskum ketti, Sfinxinum, sem hafi orðið ódauðlegur. Hins vegar forfaðirinn séð sig um hönd með að vekja Ísprinsessuna af dásvefninum, enda væri heimurinn enn of grimmur fyrir svo fagra veru. Félagarnir ákveða að virða þá ákvörðun, en hr. Zanskar ákveður þó að greiða kostnaðinn við enduruppbyggingu setursins.

Fróðleiksmolar breyta

  • Bitla er í veigameira hlutverki í sögunni en oftast nær. Hún hefur unun af að hrekkja Val og daðrar við Sval. Hún spyr Sval í stríðni hvort hann sé ástfanginn af Val. Síðar í sögunni er þó látið að því liggja að þau eigi ástarfund í íshelli í Nepal og Svalur verður miður sín þegar Bitla yfirgefur þá í bókarlok.
  • Listamennirnir sóttu mjög í smiðju Franquins og má finna ýmsar vísanir í verk hans, svo sem tækjabúnað og undralyf Sveppagreifans.
  • Sagan fékk blendnar viðtökur. Engu að síður var Yann bætt í höfundateymi Svals og Vals fyrir Aux sources du Z.