Laugarnesskóli
Laugarnesskóli er grunnskóli í Reykjavík fyrir nemendur í fyrsta til sjötta bekk.
Skólahverfi
breytaSkólahverfi Laugarnesskóla afmarkast af skólahverfi Háteigsskóla í suðri, Austurbæjarskóla í vestri og Langholtsskóla í austri. Skólinn er í útjaðri Laugardalsins og örstutt er í Laugardalslaug, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Grasagarðinn, Laugardalshöll, Laugardalsvöll, Skautahöllina Laugardal og íþróttasvæði Þróttar/Ármanns. Laugarnes- og Laugalækjarskóli mynda saman grunnskóla Laugarneshverfis, annar starfar á barnastigi (1.-6. bekk) og hinn á unglingastigi (7. til 10. bekk)
Saga
breytaLaugarnesskóli er teiknaður af Einari Sveinssyni húsameistara og er einn af elstu skólum Reykjavíkur. Hann tók til starfa 19. október 1935 og fyrsta árið voru tíu kennarar við skólann. Skólann sóttu 214 börn á aldrinum átta til þrettán ára, eitt barn var eldra. Fjöldi nemenda í Laugarnesskóla hefur verið breytilegur á milli ára. Fjölmennastur var skólinn á árunum 1950 og 1954 en þá voru tæplega 1800 nemendur í skólanum. Frá 1969 var hann eingöngu barnaskóli og frá haustinu 2002 fyrir fyrsta til sjötta bekk.
Frá því að hann hóf störf hafa ýmsar hefðir orðið til sem eru orðnar fastir liðir í skólastarfinu og margt er það sem skapar honum einstaka sérstöðu meðal grunnskóla Reykjavíkur. Má þar nefna listaverka- og náttúrugripasafn skólans, söng og leiklistarhefðir að ógleymdu Katlagili sem er sumarhús skólans í Mosfellsdal. Stefna skólans er að viðhalda grónum hefðum og þróa þær með það að leiðarljósi að nemendur skólans þroskist við að taka þátt í þeim.