Kvennaskólinn í Reykjavík

Framhaldsskóli í Reykjavík
(Endurbeint frá Kvennó)

Kvennaskólinn í Reykjavík, eða Kvennó er íslenskur framhaldsskóli í Reykjavík sem stofnaður var árið 1874. Kvennaskólinn býður upp á þriggja ára bóknám til stúdentsprófs á þremur námsbrautum; félagsfræðabraut, málabraut og náttúrufræðibraut. Skólinn byggist á bekkjakerfi en þó verður einhver skörun síðustu tvö árin er nemendum býðst takmarkað val. Í skólanum eru um 650 nemendur og starfsmenn eru 55. Skólameistari er Kolfinna Jóhannesdóttir og Ásdís Arnalds er aðstoðarskólameistari.

Kvennaskólinn í Reykjavík

Saga skólans

breyta

Aðdraganda að stofnun skólans má rekja til ávarps sem birtist í blaðinu Þjóðólfi árið 1871 og var undirritað af 25 konum.[1] Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður af hjónunum Þóru og Páli Melsteð árið 1874, sem bæði höfðu komið að birtingu ávarpsins. Kvennaskólinn er því einn af elstu skólum landsins. Þóra var fyrsti skólastjóri skólans en Ingibjörg H. Bjarnason tók við starfi skólastjóra um 1906 eftir að hafa kennt þar þrjú undanfarin ár og gegndi því starfi til dauðadags 1941. Eins og nafnið gefur til kynna var skólinn eingöngu fyrir stelpur, en því var breytt 1977 þegar piltum var veitt innganga til náms við skólann. Í dag eru piltar tæpur þriðjungur nemenda. Skólinn varð framhaldsskóli 1979 og fyrsti stúdentahópurinn útskrifaðist 1982.

Framan af var töluvert mikil áhersla lögð á að kenna fatasaum, handavinnu og teikningu í skólanum[2] og einnig var sérstök hússtjórnar- eða húsmæðradeild var við skólann frá 1905-1942 en var þá lögð niður þar sem ekki þótti þörf á henni eftir að Húsmæðraskóli Reykjavíkur var stofnaður.[3]

Skólinn í dag

breyta

Skólinn er til húsa að Fríkirkjuvegi 9 og Þingholtsstræti 37. Þetta hús er í daglegu tali kallað Uppsalir. Íþróttakennslan fer fram í leikfimissalnum í miðbæjarbyggingu Kvennaskólans. Nokkrar sérstofur eru í skólanum, t.d. fyrir líffræði, efna- og eðlisfræði, listgreinar og nokkur tungumál.

Skólinn vinnur mörg alþjóðlega samskiptaverkefni á hverju ári. Á síðustu árum hefur skólinn t.d. unnið með skólum frá Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Írlandi, Rúmeníu og Tékklandi. Nemendur, kennarar og stjórnendur hafa fengið heimsóknir frá og farið í heimsóknir til viðkomandi landa.

Kvennskælingurinn Laufey Haraldsdóttir varð fyrsta stúlkan til að sigra í Gettu betur þegar lið Kvennó fór með sigur af hólmi gegn MR vorið 2011.

Húsnæði Kvennaskólans

breyta

Skólinn var fyrst til húsa í gamla kvennaskólahúsinu við Austurvöll en flutti í núverandi húsnæði á Fríkirkjuvegi 1909. Veturinn 2011 fékk skólinn svo húsnæði Reykjavíkurborgar - Gamla Miðbæjarskólann til afnota undir starfsemi sína og verður haustönn 2011 fyrsta önnin sem sú bygging mun nýtast við kennslu í Kvennaskólanum.

Tilvísanir

breyta

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta