Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon (fæddur 5. desember 1967) er íslenskur stjórnmálamaður og borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Hann sat í Borgarstjórn Reykjavíkur sem vara- og aðalmaður frá 1994 til 2018 og sat jafnframt í Borgarráði Reykjavíkur á síðari hluta þess tímabils. Hann náði kjöri í borgarstjórn á nýjan leik 2022.
Kjartan er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og las sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1991-1999 og sinnti lengst af viðskiptafréttum. Hann er annar stofnenda sprotafyrirtækisins Intelscan örbylgjutækni. Kjartan á þrjú börn.
Stjórnmálaþátttaka
breytaKjartan hóf stjórnmálaferil sinn í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann var kjörinn formaður félagsins 1991 og 1992. Hann tók sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 1994 og náði kjöri sem varaborgarfulltrúi. Í kosningunum 1998 var hann enn kjörinn varaborgarfulltrúi en eftir að Árni Sigfússon hvarf úr borgarstjórn árið 1999 varð Kjartan aðalfulltrúi. Hann var var í 6. sætinu í borgarstjórnarkosningum 2002, í 4. sæti í kosningunum 2006.
Haustið 2007 slitnaði upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vegna ágreinings um REI-málið. Kjartan var í hópi þeirra sex borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem ekki vildi fylgja Vihjálmi Þ. Vilhjálmssyni að málum varðandi samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy.
Í prófkjörinu í janúar 2010 hlaut Kjartan 3. sæti og aftur fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014, en sat síðan í 2. sæti í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Hann tók þátt í leiðtogaprófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir kosningarnar 2018, en þar hafði Eyþór Arnalds öruggan sigur og hreppti Kjartan 3. sætið. Við uppstillingu á lista fékk hann ekki öruggt sæti, en Eyþór fékk hann til þess að vera aðstoðarmaður borgarstjórnarflokksins í kosningum og misseriið þar á eftir.
Kjartan réðist til Evrópuráðsins í Strassborg árið 2019 og starfar þar við ráðgjöf um lýðræðisvæðingu nýfrjálsra ríkja Mið- og Autur-Evrópu á sveitarstjórnasviðinu.
Tenglar
breyta- Upplýsingasíða á vef Reykjavíkurborgar Geymt 30 nóvember 2010 í Wayback Machine
- Vefur Kjartans Magnússonar Geymt 14 september 2013 í Wayback Machine