Kentári
Kentári (á íslensku oft nefndir mannfákur eða elgfróði; á forngrísku Κένταυρος, Kéntauros) er goðsagnavera í grískri goðafræði sem er maður niður að nafla en hestur að öllu öðru leyti. Í forníslensku þýðingunni á Physiologus er notað orðið finngálkn (eða finngálkan) yfir Kentára.
Heimkynni Kentára voru í hinu hrikalega Þessalíulandi. Var mest allt kyn Kentára ósiðlátt, munaðargjarnt og ofbeldishneigt með víni. Nágrannar þeirra voru Lapiþar, ferlegir risar.
Foreldrar þeirra eru Ixíón og Nefele (gr. nefos = ský). Það atvikaðist þannig að þegar Ixíon dirfðist að sækjast eftir ástum Heru, sendi Seifur honum ský sem hann hafði gefið mynd og líki Heru í einu og öllu. Ixíón sá engan mun og gat síðan Kentárana við skýmynd þessari.
Frægir Kentárar
breyta- Fólos var hinn gestrisni og vitri kentári, vinur Heraklesar. Hann beið bana þegar hann missti eitraða ör á fót sér, en Herakles gerði hann ódauðlegan með því að láta hann verða að stjörnumerkinu Kentárinn (Centaurus).
- Keiron var góður læknir og kennari margra frægra manna eins og Jasonar og Akkillesar. Hann afsalaði sér ódauðleika af fúsum vilja til handa Prómeþeifi. Skín hann síðan á himninum sem stjörnumerki Bogamannsins.
- Nessos var kentári sem Herakles felldi af því að hann hafði ætla að flytja Deijaneiru yfir straumhart fljót. En Nessos greip þá tækifærið og ætlaði að komast undan með hina fögru konu. Lagði Herakles þá ör á streng og særði Nessos til ólífis; gaf Nessos þá Dejaneiru nokkuð af blóði sínu og taldi henni trú um, að það væri hið öruggasta töfralyf til að tryggja sér ástir Heraklesar, ef hann gerðist henni afhuga. Er Herakles tókst seinna ferð á hendur til þess að ná sér í aðra konu, var Dejaneira afbrýðissöm. Sendi hún Heraklesi kyrtil vættan í blóði Nessos. En er Herakles var kominn í kyrtilinn, læsti sig eitur blóðsins um allan líkamann, svo að hann beið hinar hörmulegustu kvalir. Lét hann þá reisa sér bálköst á Ötufjalli og kastaði sér í eldslogana.
Tenglar
breytaWikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist kentárum.