Keila (íþrótt)
Keila er íþrótt og afþreying, þar sem spilarar renna keilukúlu eftir þar til gerðri braut og reyna að fella sem flesta flöskulaga pinna sem kallaðar eru keilur. Nokkrar gerðir eru til af keilu.
Keila á Íslandi
breytaÍslendingar kynntust keilu fyrst á árunum 1953 til 1955 þar sem bandarískir hermenn skildu eftir bragga með keilubrautum þegar þeir fóru aftur til síns heima eftir seinni heimstyrjöldina. Braggahverfið var kallað Camp Knox og var í Reykjavík. Aðstaðan var ekki upp á marga fiska og þess vegna lagðist keilan niður hér á landi. Þegar leiktækjasalir tóku að spretta upp í kringum 1970 buðu sumir þeirra upp á keilu á litlum færanlegum keilubrautum. Slíkar brautir var meðal annars að finna í Tómstundahúsinu við Nóatún og í Tónabæ. Á Keflavíkurstöðinni var fullbúinn keilusalur þar sem margir Íslendingar prófuðu leikinn í fyrsta skipti.
Árið 1985 var fullbúinn keilusalur, Keiluhöllin, opnaður í Reykjavík að nýju og þá gátu íslendingar farið að stunda keilu af alvöru. Keiluhöllin er í Öskjuhlíð og til að byrja með voru þar 12 brautir en fljótlega voru þær orðnar 18 og í dag eru þær orðnar 22. Ári áður en Keiluhöllin var tekin í notkun var fyrsta keilufélagið á landinu stofnað, Keilu- og veggboltafélag Reykjavíkur, KVR. Var það ekki virkt fyrr en 1. september 1985 þegar ný stjórn var kjörin. Þá tók félagið til starfa og voru stofnuð lið og deildarkeppni sett á laggirnar. Árið 1986 var nafni félagsins breytt og eftirleiðis bar það nafnið Keilufélag Reykjavíkur eða KFR. Árið 1987 var opnaður annar keilusalur í Garðabæ en þar voru 10 brautir og sama ár var Keilufélag Garðabæjar stofnað. Árið 1994 var salurinn í Garðabæ fluttur í húsnæði í Mjódd og því var Keilufélag Garðabæjar lagt niður en í stað þess var stofnuð keiludeild innan ÍR þar sem Mjóddin var á þeirra athafnasvæði. Árið 2006 var húsnæðið í Mjódd selt og þá varð aftur eingöngu einn keilusalur á höfuðborgarsvæðinu.
Seinna voru opnaðir keilusalir á Akranesi og á Akureyri. Einnig opnaði nýr keilusalur í Egilshöll í Reykjavík árið 2012 og eru eigendur hans þeir sömu og eigendur Keilusalarins í Öskjuhlíð.
KFR sá um allt öll mót og annað innan keilunnar allt fram til ársins 1989 en þá var keilan innlimuð í Íþróttasamband Íslands og var þá stofnuð Keilunefnd ÍSÍ. Keilunefndin tók við allri yfirstjórn undirnefnda og landsmóta sem KFR hafði áður haft umsjón með frá 1. júní sama ár.
Árið 1992 var Keilusamband Íslands (KLÍ) stofnað en keilunefndin var fyrsti vísirinn að því. Keilusambandið sér í dag um öll keilumál innan ÍSÍ. Keilusambandið er einnig aðili að Alþjóða keilusambandinu (WTBA) og Evrópukeilusambandinu (ETBF).
Í dag stundar fjöldi fólks keilu að staðaldri en einnig er boðið upp á að börn geti haldið upp á afmæli í sölunum, þar sem allir spila keilu og fá sér að borða.