Joan Crawford
Joan Crawford (23. mars 1904[1] – 10. maí 1977); fædd undir nafninu Lucille Fay LeSueur var bandarísk leikkona og dansari. Crawford hóf feril sinn sem leikhúsdansari á Broadway en fór að birtast í kvikmyndum árið 1925 og var lengi ein af helstu kvikmyndastjörnum Bandaríkjanna.
Joan Crawford | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fædd | Lucille Fay LeSueur 23. mars 1904[1] San Antonio, Texas, Bandaríkjunum |
Dáin | 10. maí 1977 (73 ára) Manhattan, New York-borg, New York, Bandaríkjunum |
Ár virk | 1925–1972 |
Maki | Douglas Fairbanks, Jr. (g. 1929; skilin 1933) Franchot Tone (g. 1935; skilin 1939) Phillip Terry (g. 1942; skilin 1946) Alfred Steele (g. 1955; d. 1959) |
Börn | 4 |
Undirskrift | |
Helstu hlutverk | |
| |
Óskarsverðlaun | |
Besta leikkona í aðalhlutverki fyrir Mildred Pierce (1945) |
Æviágrip
breytaJoan Crawford fæddist undir nafninu Lucille LeSueur í San Antonio á fyrsta áratugi 20. aldarinnar. Faðir hennar hafði yfirgefið móður hennar og þegar Lucille var ellefu ára hljópst stjúpfaðir hennar sömuleiðis á brott frá fjölskyldunni. Lucille hætti snemma í skóla og vann um hríð fyrir sér sem símastúlka og afgreiðslukona.[2] Lucille vann sem kórstúlka í Kansas City áður en hún var orðin tvítug og birtist síðan víða sem dansari í Chicago og Detroit. Leikhússtjórinn J. J. Shubert sá hana dansa á skemmtistað í Detroit og ákvað að ráða hana sem dansara fyrir Broadway-sýninguna Saklausu augun árið 1924.[3] Sem dansari í Winter Garden-leikhúsinu vakti Lucille athygli starfsmanns frá kvikmyndafélaginu MGM í Hollywood sem var á höttunum eftir nýjum leikurum. Hann réð hana til starfa með leiksamningi upp á 75 dollara laun á viku í desember 1924. Í upphafi vann Lucille sem staðgengill leikonnunnar Normu Shearer, sem var vinsælasta kvikmyndastjarna MGM á þeim tíma.[4]
Eftir að Lucille hóf feril sem leikari í Hollywood og fór að þykja efni í stjörnu var ákveðið að breyta nafni hennar þar sem nafnið LeSueur þótti erfitt í framburði[5] og fjölmiðlafulltrúa MGM, Pete Smith, fannst nafnið auk þess minna á enska orðið fyrir holræsi, „sewer“. Efnt var til keppni í tímaritum þar sem lesendur sendu tillögur að nýju nafni á leikkonuna og nafnið Joan Crawford varð ofan á.[4]
Árið 1929 giftist Crawford leikaranum Douglas Fairbanks yngri, syni Douglas Fairbanks, einni helstu kvikmyndastjörnu Bandaríkjanna á tíma þöglu myndanna. Fairbanks eldri og eiginkona hans, leikkonan Mary Pickford, voru ekki hrifin af ráðahagnum og báðum var ætíð illa við Crawford. Hjónaband þeirra Crawford og Fairbanks var ekki hamingjusamt þar sem Crawford einbeitti sér mun meira að sínum kvikmyndaferli en eiginmaðurinn að sínum og Fairbanks fannst niðrandi hve mikið stjarna eiginkonunnar skyggði á hann. Á meðan þau Fairbanks voru enn gift hóf Crawford áratugalangt ástarsamband við Hollywood-stórstjörnuna Clark Gable, sem Crawford lýsti síðar sem stóru ástinni í lífi sínu og sagði hann hafa „meira dýrslegt aðdráttarafl en nokkur annar karlmaður“.[2]
Joan og Douglas skildu árið 1933 og árið 1935 giftist Crawford öðrum eiginmanni sínum; leikaranum Franchot Tone. Hjónaband þeirra var ekki farsælla en hið fyrra og þau skildu fjórum árum síðar. Þriðja hjónaband hennar, við leikarann Phillip Terry, fór á svipaðan veg og entist frá 1942 til 1946. Crawford giftist í fjórða og síðasta sinn árið 1955, þegar hápunktur kvikmyndaferils hennar var að baki, athafnamanninum Alfred Steele, sem var forstjóri gosdrykkjafyrirtækisins Pepsi-Cola. Hjónaband þeirra var farsælla en hin og entist þar til Steele lést árið 1959.[2] Vegna hjónabands þeirra Steele gerðist Crawford talskona Pepsi-Cola um öll Bandaríkin og eftir að Steele lést tók hún við sæti hans í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.[6]
Á ferli Crawford var lengi haft fyrir satt að hún ætti í illdeilum við Bette Davis, aðra af helstu kvikmyndastjörnum þess tíma. Óljóst er hversu mikill óvinskapur þeirra var í raun eða hvort kvikmyndafélögin fundu hann upp eða ýktu í auglýsingaskyni. Crawford og Davis birtust saman í einni mynd, í spennumyndinni What Ever Happened to Baby Jane? árið 1962, þar sem þær hentu gaman að eigin starfsferlum með því að leika tvær systur sem voru stjörnur á yngri árum en hafa í myndinni munað sinn fífil fegurri.
Mommie Dearest
breytaÁri eftir að Crawford lést árið 1977 gaf kjördóttir hennar, Christina Crawford, út bókina Elsku mamma (e. Mommie Dearest) þar sem hún lýsti uppvexti sínum og sambandi sínu við móður sína. Í bókinni staðhæfði Christina að Crawford hefði níðst á sér og bróður sínum, Christopher, og beitt þau ofbeldi. Auk þess lýsti hún Crawford sem drykkfelldri, stjórnsamri og taugasjúkri konu. Christopher samsinnti systur sinni og sagði hana jafnvel hafa dregið úr ofbeldinu í lýsingum sínum. Í erfðaskrá sinni hafði Crawford gert bæði Christinu og Christopher arflaus og sagt að þau „vissu sjálf hvers vegna“.[3]
Yngri dætur Crawford, Cathy og Cindy, vefengdu hins vegar frásögnina og sögðust í eigin bók hafa hlotið ástúðlegt uppeldi hjá móður sinni.[7] Elsku mamma varð metsölubók og svo fór að árið 1982 var gerð kvikmynd eftir henni þar sem leikkonan Faye Dunaway fór með hlutverk Joan Crawford.[8][9]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Fæðingarár Crawford er óvíst. Crawford hélt því ávallt fram að hún væri fædd árið 1908 (og það ár er ritað á legstein hennar). Fæðingarvottorð í San Antonio frá því fyrir 1910 hafa ekki varðveist en í manntali frá árinu 1910 var Crawford sögð fimm ára. Ýmsir ævisöguritarar hallast að því að hún hafi fæðst 1904, þar á meðal dóttir Crawford, Christina, í bókinni Elsku mamma (1978).
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „„Ég veit að ég er stjarna"“. Dagur. 31. mars 2000. Sótt 15. nóvember 2019.
- ↑ 3,0 3,1 „Stjarna slokknar“. Heimilistíminn. 8. september 1977. Sótt 15. nóvember 2019.
- ↑ 4,0 4,1 „Joan Crawford frá Hollywood“. Vikan. 28. ágúst 1952. Sótt 15. nóvember 2019.
- ↑ „Öskubuskan, sem dansaði til Hollywood“. Æskan. 1. mars 1943. Sótt 15. nóvember 2019.
- ↑ Shaun, Considine (2010). Bette and Joan: the divine feud (Authors Guild backinprint.com. útgáfa). Lincoln, NE: iUniverse.com, Inc. ISBN 1450243274. OCLC 650442615.
- ↑ Bergljót Ingólfsdóttir (15. ágúst 1982). „„Mommie Dearest"“. Morgunblaðið. Sótt 15. nóvember 2019.
- ↑ „Elsku mamma“. Helgarpósturinn. 19. febrúar 1982. Sótt 15. nóvember 2019.
- ↑ „Joan Crawford“. Dagblaðið Vísir. 23. janúar 1982. Sótt 15. nóvember 2019.