Jean-Marie Faustin Godefroid "João" de Havelange (8. maí 191616. ágúst 2016) var brasilískur lögfræðingur, kaupsýslumaður og íþróttafrömuður. Hann stýrði Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, í 24 ár. Hann er sá einstaklingur sem lengst hefur gegnt embættinu að Jules Rimet einum frátöldum. Havelange átti jafnframt sæti í stjórn Alþjóðaólympíunefndarinnar frá 1961 til 2011. Fáir menn hafa haft jafnmikil áhrif á þróun stórmóta í íþróttum og hinnar alþjóðlegu íþróttahreyfingar. Í seinni tíð hefur orðspor hans þó beðið nokkurn hnekki vegna umræðna um spillingu innan FIFA í tengslum við Heimsmeistarakeppnina.

João Havelange
Havelange árið 2010.
Fæddur8. maí 1916
Rio de Janeiro, Brasilíu
Dáinn16. ágúst 2016 (100 ára)
Rio de Janeiro
ÞjóðerniBrasilískur
StörfÍþróttaforkólfur
Þekktur fyrirað vera forseti FIFA um langt árabil

Störf og ferill breyta

João Havelange fæddist í Rio de Janeiro inn í ríka og áhrifamikla fjölskyldu. Faðir hans, var belgískur innflytjandi og umsvifamikill vopnasali. Havelange var afburðanámsmaður og lauk lagabrófi frá virtum háskóla. Eftir útskrift fór hann að starfa fyrir ýmis stöndug fyrirtæki í Brasilíu og haslaði sér völl sem kaupsýslumaður.

Íþróttaleiðtogi breyta

Íþróttir vöktu snemma áhuga Havelange. Hann keppti tvívegis á ólympíuleikum. Fyrst í Berlín 1936 í sundi og síðar í sundknattleik í Helsinki 1952. Hann var fararstjóri brasilíska hópsins í Melbourne 1956.

Árið 1958 tók Havelange sæti í stjórn brasilísku ólympíunefndarinnar sem forseti sundsambands landsins. Sama ár varð hann formaður Íþróttasambands Brasilíu og gegndi því til ársins 1973. Hann varð jafnframt einn af forystumönnum Alþjóða hjólreiðasambandsins.

Forseti FIFA breyta

Árið 1974 skoraði Havelange Englendinginn Stanley Rous á hólm í kosningum til embættis forseta FIFA. Til þessa höfðu Evrópuþjóðir setið einar að valdastólunum, en með fjölgun nýrra aðildarþjóða eygði Havelange færi á að frambjóðandi utan Evrópu ætti möguleika. Hann ferðaðist vítt og breytt um heiminn og naut í kosningabaráttunni stuðnings landa síns Pelé. Helstu stefnumál hans voru fjölgun keppnisliða á HM og þar með fleiri sæti fyrir smærri álfusamböndin og stofnun HM-ungmenna sem fleiri þjóðir ættu möguleika á að hýsa.

Rous brást við samkeppninni með því að hafa samband við fulltrúa íþróttavörurisans Adidas. Fulltrúar fyrirtækisins beittu miklum þrýstingi í aðdraganda kjörsins en allt kom fyrir ekki. Havelange sigraði með sextán atkvæða mun í seinni umferð kosningarinnar. Hinum nýkjörna forseta var þó nokkur vandi á höndum, þar sem sjóðir sambandsins voru tómir og því erfitt að standa við stóru loforðin. Niðurstaðan varð sú að semja við fulltrúa Adidas, sem áður höfðu verið framboði hans andsnúnir. Þýska fyrirtækið gerðist í kjölfarið aðalstyrktaraðili Heimsmeistarakeppninnar ásamt Coca-Cola Company. Við tók tímabil stórra styktarsamninga sem gjörbylti fjárhagsstöðu FIFA. Í stað þess að sambandið berðist í bökkum og héldi sér á floti með framlögum aðildarfélaga sinna fóru háar fjárhæðir að streyma um hirslur sambandsins. Nýjar alþjóðakeppnir litu dagsins ljós og tekjur af sjónvarps- og auglýsingasamningum uxu jafnt og þétt.

Umdeildur leiðtogi breyta

Havelange hlaut oft á sig gagnrýni fyrir samskipti sín við ýmsa vafasama aðila. Fyrsta heimsmeistaramótið undir hans stjórn var í Argentínu 1978. Þar sat við völd illræmd herforingjastjórn og urðu fulltrúar hennar nánir samverkamenn Havelange þegar kom að því að bjarga mótinu á síðustu stundu, en undirbúningur þess hafði verið í skötulíki fram á árið 1976.

Tengdasonur Havelange, Ricardo Teixeira, var forseti Brasilíska knattspyrnusambandsins frá 1989-2012, þrátt fyrir að hafa ekki haft neina reynslu af slíkum rekstri. Árið 1993 komu fram ásakanir í garð Teixeira fyrir spillingu, sem leiddi m.a. til vinslita milli Havelange og Pelé. Afleiðingin af spillingarumræðunni varð sú að hitna tók undir Havelange á forsetastóli og voru taldar horfur á að hann næði ekki endurkjöri á FIFA-þinginu árið 1994. Til að treysta sig í sessi freistaði Brasilíumaðurinn þess á nú að tryggja sér stuðning knattspyrnusambanda úr þriðja heiminum með því að lofa stækkun heimsmeistarakeppninnar, að þessu sinni úr 24 í 32 lið sem einkum kæmu frá minni álfusamböndunum. Það dugði til að tryggja Havelange áframhaldandi setu í embætti en varð um leið til þess að auka togstreitu milli aðildarlanda UEFA og annarra heimshluta.

Deilur Havelange og Pelé héldu áfram að ágerast. Sá síðarnefndi varð íþróttamálaráðherra í Brasilíu og lét samþykkja lög um starfsemi knattspyrnufélaga. Þau leiddu til harðra deilna við FIFA sem gekk svo langt að hóta Brasilíu brottvikningu úr HM 1998.

Havelange sóttist ekki eftir endurkjöri á FIFA-þinginu 1998. Lennart Johansson, forseti UEFA, sóttist eftir embættinu. Hann hafði verið gagnrýninn á margt í embættisfærslum Havelange og hægri handar hans, framkvæmdastjórans Sepp Blatter. Johansson tapaði í kosningunum gegn Blatter. Eftirmæli Havelange urðu misjöfn. Óumdeilt var þó að í stjórnartíð hans hafði FIFA eflst og vaxið gríðarlega og grettistaki hafði verið lyft á ýmsum sviðum, s.s. varðandi knattspyrnu kvenna. Minningu hans hefur verið sómi sýndur með ýmsum hætti í Brasilíu, t.d. bar leikvangurinn sem hýsti frjálsíþróttakeppnina á Ólympíuleikunum í Ríó nafn hans.