Jules Rimet (14. október 187316. október 1956) var franskur íþróttafrömuður. Hann var í meira en 30 ár forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA og talinn aðalhvatamaðurinn að stofnun heimsmeistarakeppninnar.

Jules Rimet
Rimet árið 1920.
Fæddur14. október 1873
Dáinn16. október 1956 (83 ára)
ÞjóðerniFranskur
StörfÍþróttaforkólfur
Þekktur fyrirað vera lengst allra forseti FIFA

Ferill og störf

breyta

Jules Rimet fæddist í austanverðu Frakklandi nærri þýsku landamærunum. Faðir hans var kaupmaður og flutti fjölskyldan til Parísar þegar Rimet var ellefu ára gamall. Hann lærði lögfræðiði og árið 1897 stofnaði hann íþróttafélagið Red Star. Öfugt við mörg önnur félög þeirra tíma var Red Star laust við stéttaskiptingu í samræmi við stjórnmálahugsjónir stofnandans. Meðal greina sem félagið stundaði var knattspyrna sem þá naut vaxandi vinsælda.

Hann var í hópi þeirra sem komu að stofnun FIFA árið 1904, en stofnendurnir létu sig dreyma um alþjóðlega keppni bestu knattspyrnumanna heims. Þess í stað máttu þeir sætta sig við áhugamannakeppni á Ólympíuleikunum 1908. Fyrri heimsstyrjöldin varð svo til að slá öllum áformum um alþjóðamót á frest. Sjálfur gekk Rimet í franska herinn í stríðinu og hlaut heiðursmerki fyrir hugdirfsku.

Árið 1919 varð hann forseti Franska knattspyrnusambandsins og fók við forsetaembætti FIFA árið 1921. Þeirri stöðu gegndi hann til 1954 og var sat því lengst allra í embætti. Áformin um stofnun heimsmeistarakeppni, en þó sérstaklega spurningin um áhugamennsku eða atvinnumennsku í íþróttum olli mikilli misklíð milli Rimet og Pierre de Coubertin forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar sem og við knattspyrnusambönd frá Bretlandseyjum, sem að lokum yfirgáfu FIFA árið 1928.

Fyrsta heimsmeistaramótið fór fram í Úrúgvæ árið 1930 og var þá þegar keppt um verðlaunagrip sem bar nafn Jules Rimet. Að lokum unnu Brasilíumenn hann til eignar á HM 1970. Valið á Úrúgvæ sem keppnisstað mæltist illa fyrir meðal Evrópubúa og sátu flestar Evrópuþjóðir heima nema þær sem mættu fyrir þrábeiðni Rimet. Litlu mátti muna að þessar deilur kæmu keppninni fyrir kattarnef. Næsta mót, á Ítalíu árið 1934 varð ekki síður umdeilt þar sem fasistastjórnin þar í landi nýtti það óspart í áróðursskyni.

Jules Rimet lést árið 1856, tveimur dögum eftir 83 ára afmæli sitt. Sama ár hafði hann verið tilnefndur til Friðarverðlauna Nóbels fyrir þátt sinn í að sameina þjóðir heimsins á íþróttavellinum. Í kvikmyndinni United Passions um sögu FIFA er Rimet leikinn af Gérard Depardieu.