Litli-Svalur (franska: Le Petit Spirou) er myndasagnaflokkur eftir listamennina Tome og Janry. Átján bækur komu út á árabilinu 1990-2019 og hafa þrjár þær fyrstu verið gefnar út á íslensku.

Árið 1987 kom út 38. bindið í ritröðinni um Sval og Val. Það var smásagnasafn sem nefndist Furðulegar uppljóstranir á íslensku en La jeunesse de Spirou eða Æskuár Svals á frummálinu. Titilsagan fjallaði um barnungan Sval, sem er alinn upp af hótelstarfsfólki og því ætíð íklæddur lyftuvarðarbúningi. Í sögunni komu fyrir fjölmargar persónur úr sagnaheimi Svals & Vals. Valur, Bitla og Sammi frændi eru öll bekkjarfélagar Svals og Sveppagreifinn meðal kennara, ásamt helstu teiknurum úr sögu bókaflokksins.

Ekki hafði verið fyrirhugað framhald á þessari stöku sögu, en viðtökur lesenda urðu vonum framar og höfundarnir skemmtu sér svo vel við að semja söguna að þegar var farið að huga að áframhaldi. Þeir Tome og Janry, héldu áfram ritun Svals og Vals-sagnanna, en birtu jafnframt stuttar skrítlur með Litla-Sval í aðalhlutverki og komu þær fyrstu út á bók árið 1990. Sú breyting var þó gerð frá fyrstu sögunni að fyrir utan íkornan Pésa voru engar aukapersónur með tengingu við meginbókaflokkinn.

Svalur er uppátækjasamur skólastrákur í ströngum kaþólskum grunnskóla, þar sem prestar og nunnur gegna veigamiklu hlutverki. Hann er einkabarn foreldra sinna sem búa undir sama þaki og fjörgamall afi. Þau eru öll klædd í lyftuvarðabúninga. Ásamt skólafélögum sínum framkvæmir Svalur ýmis prakkarastrik. Þar sem hvolpavitið er farið að láta á sér kræla snúast mörg uppátækjanna um að liggja á gægjum, þar sem íturvaxnar kennslukonur koma m.a. við sögu.

Sögurnar um Litla-Sval rokseldust og fór svo að upplagstölur Litla-Svals voru orðnar hærri en bókanna í opinberu ritröðinni. Átti það stóran þátt í því að Tome og Janry hættu að rita þær sögur og sneru sér alfarið að Litla-Sval.

Titlar

breyta

Bókaútgáfan Iðunn gaf út tvær fyrstu sögurnar um Litla-Sval sömu ár og þær komu út í heimalandinu. Árið 2020 tók Froskur útgáfa upp þráðinn að nýju með þriðju bókinni.

 1. Heilsaðu frúnni (Dis bonjour à la dame! 1990) [ísl. útg. 1990, bók 1]
 2. Ekki bora í nefið (Tu veux mon doigt? 1991) [ísl. útg. 1991, bók 2]
 3. Hvað gengur hér á? (Mais qu'est-ce que tu fabriques? 1992) [ísl. útg. 2020, bók 3]
 4. C'est pour ton bien! (1994)
 5. « Merci » qui? (1994)
 6. N'oublie pas ta capuche! (1996)
 7. Demande à ton père! (1997)
 8. T'as qu'à t'retenir! (1999)
 9. C'est pas de ton âge! (2000)
 10. Tu comprendras quand tu s'ras grand! (2001)
 11. Tu ne s'ras jamais grand! (2003)
 12. C'est du joli! (2005)
 13. Fais de beaux rêves! (2007)
 14. Bien fait pour toi! (2009)
 15. Tiens-toi droit! (2010)
 16. T'es gonflé! (2012)
 17. Tout le monde te regarde! (2015)
 18. La Vérité sur tout! (2019)
 19. On parle pas la bouche pleine! (2022)