Jöfnunarsæti

Jöfnunarsæti eða uppbótarsæti eru notuð í þingkosningum í flestum Norðurlandanna og Þýskalandi. Jöfnunarmenn koma til viðbótar við kjördæmakjörna þingmenn og hafa þann tilgang að úthlutun þingsæta til stjórnmálaflokka á landsvísu sé í sem mestu samræmi við hlutfallslega skiptingu atkvæða á landsvísu.

Á ÍslandiBreyta

Á Íslandi eru 9 af 63 sætum á Alþingi jöfnunarsæti en til þess að stjórnmálaflokkur komi til greina við úthlutun jöfnunarsæta þarf hann að hafa fengið a.m.k. 5% atkvæða á landsvísu. Úthlutunin fer fram í tveimur þrepum:

  1. Til að finna út hve mörg jöfnunarsæti koma í hlut hvers flokks er notast við D'Hondt-regluna til að finna út svonefndar landstölur hvers flokks. Deilt er í fjölda atkvæða á landsvísu með fjölda kjördæmakjörinna þingmanna flokksins og svo með fjölda kjördæmakjörinna þingmanna að einum viðbættum og svo koll af kolli og þannig fundin röð af landstölum fyrir hvern flokk. Þeir stjórnmálaflokkar sem hafa 9 hæstu landstölurnar fá jöfnunarsætin í sinn hlut.
  2. Til að finna út hvaða frambjóðendur ná kjöri sem jöfnunarmenn er sætunum svo úthlutað þannig að byrjað er á flokkinum sem var með hæstu landstöluna í fyrsta þrepi. Sá flokkur fær svo jöfnunarmanni úthlutað í því kjördæmi þar sem sá frambjóðandi flokksins sem næst yrði kjördæmakjörinn hefur mest fylgi hlutfallslega miðað við greidd atkvæði í kjördæminu. Svona er haldið áfram með flokkana samkvæmt landstölunum þangað til öllum jöfnunarsætum hefur verið úthlutað.[1]

Vegna misvægis á milli kjördæma á Íslandi þar sem mun færri kjósendur eru að baki hverjum kjördæmakjörnum þingmanni í landsbyggðarkjördæmunum en á höfuðborgarsvæðinu getur komið til þess að jöfnunarsætin dugi ekki til þess að jafna hlut stjórnmálaflokka á landsvísu. Þetta gerðist í Alþingiskosningum 2013, 2016 og 2017 þar sem ýmist Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn fengu fleiri þingsæti en þeim bar miðað við úrslit kosninganna á landsvísu.[2]

HeimildirBreyta

  1. Hverjar eru úthlutunarreglur jöfnunarþingsæta? - Vísindavefurinn
  2. Jöfnunarsæti þyrftu að vera fleiri - RÚV, 26.1.2021