Jón Rúgmann (Jón Rúgmann Jónsson eða Jonas Rugman, skírður: Jón Jónsson); (1. janúar 163624. júlí 1679) var íslenskur fornritafræðingur í Svíþjóð, sem tók sér ættarnafnið Rúgmann eftir fæðingarbæ sínum Rúgsstöðum í Eyjafirði, sem nú heitir Rútsstaðir.

Faðir Jóns var Jón Guðmundsson á Rúgsstöðum, prestur og málari, og móðir hans var Sigríður „eldri“ Ólafsdóttir, húsmóðir. Jón fór í Hólaskóla en var rekinn fyrir mótþróa við rektor skólans. Jón hélt þá, árið 1658, með fátæklegt bókasafn sitt til Kaupmannahafnar að leita leiðréttingar mála sinna.

Um þær mundir voru Svíar að vinna frægan sigur sinn yfir Dönum í fjórða dansk-sænska stríðinu. Svíar höfðu öll völd á hafinu og tóku skipið og hinn danska þegn Jón Jónsson og fluttu til Gautaborgar. Þar var fyrir dróttseti ríkisins Per Brahe, lærdómsmaður mikill, og fýsti hann að vita nokkuð um innihald bóka þeirra er Jón hafði í fórum sínum. Fékk hann mikinn áhuga á þeim þegar hann vissi að þar segði frá Gauta konungi á Gautlandi og Hrólfi syni hans, og einnig frá Yngva Uppsalakonungi og Ingibjörgu dóttur hans sem sprakk af harmi.

Nú var Jón frá Rúgsstöðum leystur úr böndum og sendur til náms í Visingsö og Uppsölum, svo að hann yrði fær um að þýða hinar íslensku sögur á sænsku eða latínu. Komst hann þar í kynni við Olof Verelius og veitti honum mikilsverða aðstoð við að læra íslensku og lesa og þýða íslensk handrit. Árið 1667 var í Uppsölum stofnað sérstakt fornfræðaráð eða Collegium Antiqvitatum sem skyldi vera miðstöð fornaldarrannsókna, og var Jón Rúgmann í þjónustu þess til dauðadags.

Eftir hans dag voru þar ýmsir Íslendingar við störf, stundum fleiri en einn í senn, allt fram á 18. öld. Meðal þeirra voru Guðmundur Ólafsson (d. 1695), Jón Eggertsson (d. 1689) og Jón Vigfússon (d. 1692). Svíar urðu og fyrstir til að gefa út íslenskar sögur, einkum svokallaðar fornaldarsögur sem gerast á þeim tíma er nú mundi kallaður „forsögulegur“. Töldu þeir að sögur þessar væru ritaðar á hinu forna tungumáli Svíþjóðar sem þeir kölluðu „forngausku“. Fyrsta sagan var Gautreks saga og Hrólfs saga Gautrekssonar sem Jón Rúgmann hafði í pússi sínu þegar hann var handtekinn; hún var prentuð í Uppsölum árið 1664.

Kona Jóns Rúgmanns (gift 1671) varð Birgitta Bring; faðir hennar var prófessor í lögum við Uppsalaháskóla. Þau eignuðust tvö börn.

Helstu prentuð rit breyta

Heimildir breyta

  • Heimir Pálsson: Örlagasaga Eyfirðings. Jonas Rugman - Fyrsti íslenski stúdentinn í Uppsölum. Málsvörn menningaröreiga, Rvík 2017, 252 s. Studia Islandica 66.
  • Jón Helgason: Handritaspjall, Rvík 1958:87–88.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Jón Rugman“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 23. maí 2010.