Jóhannes Áskelsson
Jóhannes Áskelsson (3. ágúst 1902 – 16. janúar 1961) var íslenskur jarðfræðingur, fæddur að Austari-Krókum á Flateyjardalsheiði. Foreldrar hans voru Áskell Hannesson og Laufey Jóhannesdóttir sem lengi bjuggu á Skuggabjörgum í Dalsmynni. Jóhannes lauk stúdentsprófi frá MR 1925 og innritaðist veturinn eftir í Hafnarháskóla og hóf nám í náttúrufræðum með jarðfræði sem sérgrein. Hann aflaði sér góðrar menntunar en lauk þó aldrei prófi.
Árið 1931 sneri hann heim og gerðist kennari í náttúrufræði fyrst við Kennaraskólann og fleiri skóla en starfaði þó lengst við MR og var yfirkennari þar frá 1950 og til dauðadags. Með kennslustörfunum og í frístundum sínum stundaði Jóhannes, jarðfræðiathuganir, einkum steingervingarannsóknir en kom þó miklu víðar við. Hann fylgdist til dæmis með Grímsvatnagosinu 1934 og fór með Guðmundi frá Miðdal til gosstöðvanna meðan gosið var enn í fullum gangi. Urðu þeir fyrstir manna á vettvang.
Á næstu árum fór hann margar ferðir í Grímsvötn og skrifaði greinar um eldvirknina og hlaupin sem þar eiga upptök sín. Einnig rannsakaði hann Grænalón og Grænalónshlaup, jarðsögu Kerlingarfjalla og steingervinga á Tjörnesi. Á seinni árum sínum stundaði hann einkum rannsóknir á Snæfellsnesi og ritaði um skelja- og steingervingalögni í Brimlárhöfða. Ein af síðustu ritgerðum Jóhannesar fjallar um skeljar í móbergi í Skammadal í Mýrdal sem hann kannaði ásamt Einari H. Einarssyni bónda á Skammadalshóli.
Jóhannes var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags 1942-1945 og 1958-1960. Hann var ritstjóri Náttúrufræðingsins 1942 – 1945 og meðlimur í Vísindafélagi Íslendinga frá 1940.
Vænghlynur (Acer askelssonii) sem óx á Íslandi á tertíer er kenndur við Jóhannes.[1]
Tengill
breyta- ↑ Hin séríslenska hlyntegund Kjarnaskógur.is