Irawati Karve
Irawati Karve (15. desember 1905 – 11. ágúst 1970) var indverskur mannfræðingur, félagsfræðingur og kennari frá Maharashtra. Hún var nemandi félagsfræðingsins G. S. Ghurye og talin fyrsti kvenkyns félagsfræðingurinn á Indlandi.
Hún fæddist inn í auðuga fjölskyldu Chitpavan-bramína og var nefnd eftir Irrawaddy-fljóti. Hún sótti nám í heimspeki við einkaskólann Fergusson College og fékk svo námsstyrk til að læra félagsfræði við Bombay-háskóla. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Dinkar Dhondo Karve, sem kenndi þar efnafræði. Hann hafði lokið doktorsprófi í lífefnafræði frá háskóla í Þýskalandi og Irawati fékk árið 1928 styrk til að sækja nám við Kaiser Wilhelm-stofnunina um mannfræði, mannerfðafræði og mannkynbætur þaðan sem hún lauk doktorsprófi tveimur árum síðar.
Irawati Karve stundaði rannsóknir á sviðum mannmælinga, sermifræði, indverskra fræða og steingervingafræði. Hún aðhylltist dreifihyggju (að menningarþættir dreifist án þess að fólksflutningar komi við sögu) og trúði á gildi þess að kortleggja þjóðernishópa á Indlandi á grundvelli þess sem þá var kallað „erfðafræði“ (blóðflokkur, litasjón, fingurflétta og ofhæring). Þessar rannsóknaraðferðir eru ekki lengur í gildi, en á síðustu árum hafa aðrir þættir rannsókna hennar á vistfræði og menningu Maharashtra vakið áhuga. Hún fékk stöðu við Deccan College í Pune árið 1939 og gegndi henni til dauðadags.