Foxy Brown
Foxy Brown (f. 6. september 1978) er bandarísk rapptónlistarkona, sem heitir réttu nafni Inga Marchand.
Foxy Brown fæddist í New York og hóf feril sinn árið 1996, 16 ára að aldri, þegar hún söng: "I Shot Ya" á hljómplötu LL Cool J, "Touch Me, Tease Me" á plötu Case, "You're Makin' Me High" á plötu Toni Braxton, "Ain't No..." með Jay-Z og "No One Else" með Total. Sama ár gerði hún samning við hljómplötuútgefandann Def Jam og gaf út sína fyrstu sólóplötu, Ill Na Na. Platan seldist vel en fékk mjög misjafna dóma. Mörgum þótti efni plötunnar heldur gróft miðað við aldur Foxy og kyn, en platan fékk þó víða góða dóma og lögin "I'll Be" (ásamt Jay-Z) og "Get Me Home" (ásamt Blackstreet) náðu miklum vinsældum. Síðar sama ár tók Foxy, ásamt Dru Hill, upp lagið "Big Bad Mama", sem var notað sem kvikmyndartónlist í Def Jam's How to Be a Player.
Foxy gekk í rappsveitina The Firm, ásamt AZ, Nas og Cormega (sem var síðar rekinn, en staðgengillinn Nature tók við). The Firm gaf út plötuna Nas, AZ, and Foxy Brown Present The Firm: The Album árið 1997, en platan hlaut litla athygli og því sneru meðlimirnir sér aftur að sólóferlum sínum. Árið 1999 gaf Foxy út aðra sólóplötu sína, Chyna Doll. Sú plata seldist ekki eins vel og sú fyrsta, en varð þó fyrsta plata kvenrappara til að komast í fyrsta sæti á plötuvinsældarlista Billboard strax í fyrstu viku. Á plötunni var lagið "Hot Spot", sem náði miklum vinsældum.
Þriðja plata Foxy Brown kom út árið 2001. Það var platan Broken Silence, sem er sú allra persónulegasta af plötum Foxy. Platan náði miklum vinsældum og hlutu lögin "Candy" (sem söngkonan Kelis syngur einnig), "Oh Yeah" (sem reggae-söngvarinn Spragga Benz syngur) og "BK Anthem" mikla athygli. Foxy var hrósað fyrir góða söngtexta á plötunni.
Árið 2003 kom Foxy fram í lagi DJ Kay Slay, "Too Much For Me" og ári síðar gaf hún út smáskífuna "I Need A Man". Hún vann að gerð plötunnar Ill Na Na 2: The Fever en útgáfu plötunnar var frestað vegna deilna á milli Foxy og forstjóra Def Jam, Lyor Cohen, og að lokum var samningi Foxy hjá fyrirtækinu sagt upp. Síðar kom Foxy fram í sjónvarpsþætti og sagðist vera að vinna að ýmsum verkefnum, svo sem hlutverki í kvikmynd og raunveruleikaþætti, samningi við annan hljómplötuútgefanda og fleira.
Foxy Brown var tilnefnd til Grammy verðlaunanna árið 2003, í flokki kvensólórappara en vann þau þó ekki. Foxy hefur allan sinn feril átt í deilum við rapparann Lil' Kim en hefur árangurslaust reynt að semja við hana.
Foxy er gift söngvaranum Spragga Benz.