Þrúður er dóttir þrumuguðsins Þórs og gyðjunnar Sifjar í norrænni goðafræði. Þrúður er einnig nafn á valkyrju og er þar hugsanlega um að ræða sömu persónu.

Þrúður og dvergurinn Alvís á mynd eftir Lorenz Frølich.

Ritaðar heimildir um Þrúði

breyta

Minnst er á Þrúði í eftirfarandi heimildum:

Sæmundaredda

breyta

Í kvæðinu Alvíssmálum sem ritað er í Sæmundareddu kemur dvergur að nafni Alvís á fund Þórs. Alvís heimtar að fá að kvænast dóttur Þórs og segir að hún hafi trúlofast honum á meðan Þór var að heiman. Dóttir Þórs er ekki nefnd á nafn í kvæðinu en yfirleitt er gert ráð fyrir að hún sé Þrúður.[1] Þór neitar dvergnum um hönd dóttur sinnar og leggur fyrir hann ýmsar gátur til að reyna á gáfur hans. Alvís svarar öllum gátunum en breytist í stein þegar sólin rís.

Snorra-Edda

breyta

Í Skáldskaparmálum kemur fram að í kveðskap megi nota kenninguna „faðir Þrúðar“ til að kenna Þór. Jafnframt er „móðir Þrúðar“ kenning sem er notuð til að kenna Sif í kveðskap.

Þrúður virðist vera eina barnið sem hjónin Þór og Sif eiga saman – Þór á Magna með Járnsöxu og Sif á Ull með óþekktum föður. Hugsanlegt er að Móði sé einnig sonur Sifjar en móðir hans er hvergi nafngreind í rituðum heimildum.

Í kvæðinu Ragnarsdrápu eftir Braga Boddason er jötunninn Hrungnir kallaður „Þrúðar þjófur“. Þetta virðist vera vísun í sögu þar sem Hrungnir rænir Þrúði, en engin slík saga er þekkt. Í Skáldskaparmálum segir Snorri Sturluson frá bardaga Þórs og Hrungnis en orsök viðureignarinnar tengist Þrúði þar ekki.

Í Þórsdrápu er Þór kallaður „þrámóðnir Þrúðar“. Hugsanlega er þessi kenning önnur vísun í sögu þar sem Þrúði er rænt.

Rúnasteinninn í Karlevi

breyta

Nafn Þrúðar kemur fyrir í dróttkvæðri vísu sem rituð er á rúnastein frá 10. öld í Karlevi á Eylandi. Í vísunni er ónefndur höfðingi kallaður „dólga Þrúðar draugur“.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. „Alvíssmál“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. 1. janúar 1924. Sótt 16. apríl 2019.
  2. „Skýring“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. 1882. Sótt 16. apríl 2019.