Halldór Pétursson
Halldór Pétursson (26. september 1916 – 16. mars 1977) var íslenskur myndlistarmaður og teiknari. Halldór fæddist í Reykjavík og voru foreldrar hans Pétur Halldórsson, borgarstjóri og alþingismaður, og Ólöf Björnsdóttir.
Halldór byrjaði ungur að teikna og varð snemma þekktur fyrir teikningar sínar. Hann sótti einkatíma hjá málurunum Guðmundi Thorsteinsson (Mugg) og Júlíönu Sveinsdóttur. Halldór hlaut stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935 og hélt þaðan til náms við Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi í auglýsingateiknun árið 1938. Hann starfaði upp frá því við ýmiss konar teiknivinnu og auglýsingagerð. Árin 1942 – 1945 hélt Halldór til frekara náms við Minneapolis School of Art og Art Students League í New York. Að framhaldsnámi sínu loknu fékkst hann aðallega við myndskreytingar og skopteikningar og var mikill frumkvöðull á því sviði.
Árið 1976 kom út bókin Helgi skoðar heiminn. Tilurð bókarinnar var sú að Halldór teiknaði myndirnar en Njörður P. Njarðvík skrifaði sögu við þær. Það er fyrst eftir útkomu þessa verks að hægt er að segja að útgáfa íslenskra myndabóka, þar sem jöfn áhersla er lögð á myndir og texta, hefjist fyrir alvöru.
Halldór myndskreytti fjölda bóka og rita um ævina. Meðal annars myndskreytti hann Spegilinn frá árinu 1947 og teiknaði forsíður á Vikuna. Halldór hafði mikinn áhuga á hestum og voru hestamyndir eitt af „vörumerkjum“ hans. Meðal frægustu teikninga hans eru myndaröð heimsmeistaraeinvígisins í skák þegar Boris Spassky og Bobby Fischer háðu í Reykjavík 1972 og þorskastríðsmyndir sem voru birtar í blöðum og tímaritum út um allan heim.
Á meðal frægra verka Halldórs er merki Reykjavíkurborgar, en Halldór var ráðinn til að útfæra merkið á grundvelli samkeppni sem bæjarstjórn Reykjavíkur efndi til í mars 1951. Einnig teiknaði hann merki Flugleiða og Rafmagnsveitu Reykjavíkur.
Halldór hannaði og teiknaði alla þá Íslensku peningaseðla sem gefnir voru út á árunum 1960 til 1981
Halldór Pétursson teiknaði marga jólasveina á ferli sínum og einnig teiknaði hann nokkrar myndir af Grýlu en frægust þeirra er Grýlan í Vísnabókinni. Halldór var einn af stofnendum Félag íslenskra teiknara.
Sýningar
breyta- Samsýning í Listmannaskálanum árið 1949.
- Einkasýning í Listamannaskálanum árið 1952.
- Einkasýning í Hliðskjálf árið 1952.
- Samsýning á Alþjóðasýningu Karakatúra árið 1967.
- Samsýning í Ítalíu hjá International Childrens Book Show árið 1971.
- Einkasýning á Kjarvalsstöðum árið 1976.
- Einkasýning hjá Gallerí Háhól árið 1977.
- Sýning í Gallerí Fold árið 2011.
Tekin var saman bók árið 1980 þar sem mörgum myndum listamannsins var safnað saman.
Heimildir
breyta- Félag íslenskra teiknara
- Jólasveinar Halldórs Péturssonar Geymt 2 mars 2007 í Wayback Machine
- seisai.is
- Síða um Halldór hjá UMM Geymt 17 nóvember 2015 í Wayback Machine