Hafsteinn Guðmundsson
Hafsteinn Guðmundsson (1. október 1923 – 29. apríl 2012) var íslenskur íþróttakennari og æskulýðsfrömuður. Hann lék landsleiki fyrir Íslands hönd í bæði knattspyrnu og handknattleik og varð Íslandsmeistari í báðum greinum með Val. Hann fluttist til Keflavíkur og varð þar leiðandi í æskulýðs- og íþróttastarfi um langt árabil.
Ferill
breytaHafsteinn fæddist og ólst upp í Reykjavík þar sem hann hóf ungur að æfa íþróttir með Knattspyrnufélaginu Val. Hann varð Íslandsmeistari í knattspyrnu fimm ár í röð, 1942-45 og í Íslandsmeistari í handbolta fjórum sinnum á árabilinu 1944 til 1951. Þá tók hann þátt í fyrsta leik knattspyrnulandsliðsins, gegn Dönum árið 1946.
Hann útskrifaðist úr Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1947 og hóf í kjölfarið íþróttakennslu suður með sjó. Hann fluttist til Keflavíkur árið 1951 og hóf árið 1954 að spila knattspyrnu með heimamönnum. Hann var aðalhvatamaður þess að Íþróttabandalag Keflavíkur var stofnað árið 1956 og gegndi formennsku þess frá upphafi til 1975. Hann var auk þess spilandi þjálfari Keflavíkurliðsins á árunum 1958-60. Í formannstíð Hafsteins varð ÍBK fjórum sinnum Íslandsmeistari. Síðar gerðist hann formaður Ungmennafélags Keflavíkur frá 1978-1981.
Hafsteinn sat lengi í stjórn Knattspyrnusambands Íslands og lét sig málefni landsliðsins miklu varða. Árið 1969 var hann skipaður landsliðseinvaldur og gegndi því næstu fjögur árin.[1] Í embættinu fólst að Hafsteinn var einráður um val landsliðshópsins, þótt landsliðsþjálfarinn sæi um stjórn liðsins að öðru leyti. Fram að þessu hafði val landsliðsins verið í höndum sérstakrar landsliðsnefndar, sem oft sætti gagnrýni.