Hafnarfjarðarganga
Hafnarfjarðarganga eða Herstöðvagangan frá Hafnarfirði var mótmælaganga gegn veru hersins á Keflavíkurflugvelli sem haldin var 11. júní árið 1972. Þetta var fyrsta skipulagða fjöldasamkoma Samtaka herstöðvaandstæðinga. Henni má ekki rugla við samnefnda aðgerð árið 1985.
Gangan
breytaSamtök herstöðvaandstæðinga voru stofnuð í maí 1972, en eldri baráttusamtök gegn hersetunni Samtök hernámsandstæðinga höfðu hætt störfum nokkrum misserum fyrr. Nýkjörin miðnefnd hinna nýju samtaka taldi brýnt að sýna styrk þeirra sem allra fyrst. Ekki var talinn nægur tími til að skipuleggja Keflavíkurgöngu með svo skömmum fyrirvara en þess í stað látið nægja að safnast saman í miðbæ Hafnarfjarðar og ganga til Reykjavíkur.
Safnast var saman við Bæjarbíó í Hafnarfirði kl. 19 þar sem haldinn var stuttur fundur. Annar fundur var haldinn við félagsheimili Kópavogs kl. 21 og sá þriðji í göngulok við Miðbæjarskólann kl. 22:45. Að sögn blaðanna Þjóðviljans, Alþýðublaðsins og Tímans voru á milli fimm og sex þúsund manns við lok göngunnar, en Morgunblaðið lét þess getið að þrjú til fjögur hundruð hefðu hafið göngu og unglingar áreitt göngufólk á nokkrum stöðum.
Ræðumenn
breytaÝmsar ræður voru fluttar fyrir göngufólk. Í Hafnarfirði flutti Gunnlaugur Ástgeirsson formaður Stúdentaráðs HÍ ávarp. Í Kópavogi hélt Guðmundur Sæmundsson starfsmaður Orðabókar Háskólans ræðu og Böðvar Guðmundsson flutti lög sín. Í Reykjavík var Njörður P. Njarðvík fundarstjóri, en ræðumenn voru Cecil Haraldsson varaformaður Sambands ungra jafnaðarmanna, Elías Snæland Jónsson blaðamaður, Kjartan Ólafsson ritstjóri og Tryggvi Aðalsteinsson formaður Iðnnemasambandsins.