Hadríanusarmúrinn

Hadríanusarmúrinn (enska: Hadrian’s Wall, latína: Vallum Aelium) er varnargarður úr grjóti og torfi sem Rómverjar létu reisa þvert yfir Norður-England. Verkið var hafið árið 122 e.Kr. á ríkisárum Hadríanusar keisara. Hann var annar af tveimur fyrstu varnargörðum sem reistur var í Stóra-Bretlandi, hinn er Antonínusarmúrinn sem liggur þvert yfir Skotland. Hadríanusarmúrinn er þekktari af því rústir hans eru heillegri.

Hluti af múrnum

Talið er að múrinn hafi verið reistur til þess að afmarka landamæri Rómaveldis í Stóra-Bretlandi, þ.e. Brittaníu, og veita vörn gegn árásum þjóðflokka norðan hans. Bygging múrsins bætti efnahag manna í landamærahéruðunum og stuðlaði að friðsamlegra ástandi, enda var hann einhver tryggustu landamæri Evrópu á þeim tíma.

Múrinn var um 120 kílómetrar á lengd en þykkt og hæð var misjöfn og fór eftir efnivið og aðstæðum á hverjum stað. Sumstaðar var hann gerður úr tilhöggnu grjóti, annars staðar úr torfi. Hæðin var frá 3,5 metrum upp í fimm til sex metra og múrinn var allt að sex metrar á þykkt en þó víðast hvar mun mjórri. Virkisgrafir voru meðfram honum og á honum eða við hann voru um 80 litlir virkisturnar þar sem rómverskar herdeildir höfðu aðsetur og fylgdust með mannaferðum.

Megnið af múrnum stendur enn í dag og er hann heillegastur um miðbikið en allt fram á 20. öld var þó tekið grjót úr honum til að nota í önnur mannvirki. Göngu- og hjólastígur liggur meðfram honum mestöllum. Hann er helsti ferðamannastaður í Norður-Englandi og þar kallar fólk hann Roman Wall eða the Wall. Hadríanusarmúrinn var skráður á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987. Samkvæmt English Heritage, samtökum sem stjórna varðveislu sögustaða í Englandi, er hann „mikilvægasta rómverska minnismerkið í Bretlandi“.

Heimildir

breyta
   Þessi Englandsgrein sem tengist sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.