Rómverska Bretland

(Endurbeint frá Brittanía)

Rómverska Bretland á við þann hluta Bretlandseyja sem Rómverjar stjórnuðu frá árinu 43 til um það bil 410. Rómverjar kölluðu þetta svæði Brittaníu, og með tíð og tíma náði það yfir suðurhluta landsins norður að landamærum Kaledóníu. Fyrir landvinninga Rómverja höfðu Bretar menningar- og viðskiptatengsl við meginland Evrópu, en innrásarmennirnir innleiddu nýjungar í landbúnaði, þéttbýlisþróun, iðnaði og byggingarlist. Enn í dag sjást merki um þessi áhrif.

Rómverska Bretland árið 410 e.Kr.
Skattlandið Brittanía innan Rómaveldis

Heimildir sem fjalla um tímann eftir landvinninga Rómverja eru fáar, en nokkrir rómverskir sagnaritarar fjalla lauslega um Brittaníu. Nöfn margra landstjóra Brittaníu eru þekkt. Helstu heimildir um rómverska Bretland stafa frá fornleifafundum og áletrunum.

Fyrsta herferð Rómverja til Bretlands var á vegum Júlíusar Caesars árið 55 og 54 f.Kr. Landvinningar byrjuðu þó ekki fyrr en 43 e.Kr. undir stjórn Claudíusar keisara. Rómverjar stofnuðu þar rómverskt skattland og smám saman færðu þeir út yfirráðasvæði sitt, en aldrei tókst þeim að ná tökum á Kaledóníu. Landvinningum þessum fylgdi tímabil rómversk-breskrar menningar. Til þess að koma í veg fyrir árásir úr norðri byggðu Rómverjar Hadríanusarmúrinn á norðurlandamærum skattlandsins, og var lokið við hann um árið 128. Árið 142 fóru þeir enn norðar og byggðu Antonínusarmúrinn, en hörfuðu suður um það bil tuttugu árum síðar. Um árið 197 skiptist Brittanía í tvö skattlönd: Britannia Superior og Britannia Inferior, en árið 305 skiptist hún í fleiri skattlönd og var gerð að biskupsdæmi. Þá var mikið um innrásir barbara og skattlöndin komust oft undir stjórn valdaræningja. Rómverjar fóru frá Bretlandi árið 410 en áhrif þeirra héldust í mörg hundruð ár.

Tenglar

breyta
   Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.