Höfðaströnd
Höfðaströnd er byggðarlag á ströndinni kringum Hofsós við austanverðan Skagafjörð. Syðsti bær byggðarlagsins er Gröf en ystur er Höfði. Sveitin er kennd við Þórðarhöfða, sem setur mikinn svip á landslagið.[1] Innan við hann er Höfðavatn, stærsta vatn í Skagafirði, en það er þó raunar fremur sjávarlón.[2]
Frá Höfðaströnd var löngum töluverð útgerð, ekki aðeins frá Hofsósi, heldur einnig frá Bæjarklettum í landi Bæjar á Höfðaströnd, og risu þar þurrabúðir þar sem íbúar lifðu á fiski og fuglaveiðum við Drangey, auk nokkurra grasnytja. Aðalverslun héraðsins var í Hofsósi á Höfðaströnd frá því um 1600, þegar hafnaraðstæður við Kolkuós versnuðu til muna, og fram undir lok 19. aldar, þegar Sauðárkrókur tók við sem helsti verslunarstaður Skagafjarðar. Einnig var verslun í Grafarósi á Höfðaströnd frá því um 1840 til 1915.[3]
Höfðaströnd var áður hluti af Hofshreppi en tilheyrir Sveitarfélaginu Skagafirði eftir sameiningu hreppa í héraðinu.[4] Tveir kirkjustaðir eru á Höfðaströnd, Hof og Gröf, en þar er gamalt bænhús frá síðari hluta 18. aldar sem var endurvígt 1953.[5][6] Töluverð uppbygging hefur verið á Höfðaströnd á síðustu árum og er Listasetrið Bær dæmi um hana.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Nafnið.is“. nafnid.arnastofnun.is (enska). Sótt 9. mars 2025.
- ↑ „Höfði Höfðaströnd - NAT ferðavísir“. 7 júlí 2020. Sótt 9. mars 2025.
- ↑ Bryndís Zoëga (2013). „Strandminjar við austanverðan Skagafjörð, 2. áfangi“ (PDF). Byggðasafn Skagafirðinga. bls. 2, 8, 30.
- ↑ Skagafjörður. „Fróðleikur um Skagafjörð“. Skagafjörður. Sótt 9. mars 2025.
- ↑ Vilborg Magnúsdóttir (Janúar 2017). „Hringlaga kirkjugarðar á Íslandi: Frumathugun á stærðardreifingu“ (PDF). bls. 12–13.
- ↑ Norðurlands, Markaðsstofa. „Bænahúsið á Gröf“. Upplifðu Norðurland. Sótt 9. mars 2025.