Hælavík
Hælavík er vík á Hornströndum milli Skálakambs og Hælavíkurbjargs. Hæll nefnist bergstandur sem stendur upp úr sjónum norður af bjarginu. Við hlið drangsins Hæll er annar drangur og heitir sá Göltur. Víkin er lítið dalverpi og umlukt hömrum á alla vegu. Hún er ein þriggja víka sem liggja milli Kjalárnúps í Almenningum og Hælavíkurbjargs en þær eru Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík. Þær eru kallaðar einu nafni Víkurnar. Þar sem Hælavík gengur til móts við Hvannadal er Hvannadalsvatn. Inn af Hælavík er talin vera álfabyggð. Jörðin í Hælavík fór í eyði árið 1943. Bærinn stóð rétt fyrir ofan fjörukambinn rétt hjá Mávatjörn. Frá Hælavík er gönguleið upp á Hælavíkurbjarg og líka austur yfir í Hvannadal í Hornvík. Einnig er hægt að ganga innar bak Ófærubjargs og upp í Atlaskarð að Rekavík bak Höfn og þangað í Hornvík.
Jakobína Sigurðardóttir skáldkona fæddist í víkinni. Um æsku sína þar skrifaði hún síðar bókina Í barndómi. Í bókinni er uppdráttur af bæjarhúsunum sem þar stóðu.
Nafngift
breytaÞórleifur Bjarnason telur að Hælavík og Hælavíkurbjarg dragi nafn sitt af kletti í sjónum undan bjarginu sem nefnist Hæll.[1]
Kristinn Kristmundsson telur óljósara hvaðan örnefnin eru dregin. Í gömlum heimildum er víkin nefnd Heljarvík eða Hælarvík. Hælarvíkurnafnið verður einrátt lengi, en á 19. öld kemur Hælavík fyrst fram.[2]
Skálholtsannáll nefnir Heljarvík við árið 1321[3]:
„Kom hvítabjörn mikill af ísum norður á Ströndum og drap viij menn í Heljarvík og reif alla í sundur og át upp suma alla.“
Rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju 1327 nefnir einnig Heljarvík[4]
„J helarvik allan hvalReka oc gieþi onnor.“
Heimild
breyta- ↑ Hornstrendingabók - baráttan við björgin, Þórleifur Bjarnason, bls. 370
- ↑ Sléttuhreppur - fyrrum Aðalvíkursveit, Krirstinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason, bls. 61.
- ↑ Íslenskir annálar og aðrar gamlar veðurheimildir
- ↑ Diplomatarium Islandicum = Íslenzkt fornbréfasafn: Blaðsíða 620 (648), 2. b. (1253-1350)