Hávallagata 24
Hávallagata 24 eða Hamragarðar er íbúðarhús við Hávallagötu í Reykjavík sem Samband íslenskra samvinnufélaga lét reisa fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu, einn kunnasta leiðtoga íslenskra samvinnumanna og skólastjóra Samvinnuskólans. Fékk Jónas húsið afhent árið 1941.
Hamragarðar teljast merkilegt hús í byggingarsögulegu samhengi. Arkitekt þess var Guðjón Samúelsson, sem hafði þá ekki teiknað íbúðarhús í um áratug vegna anna við stór opinber verkefni. Leiðir Guðjóns og Jónasar höfðu raunar oft legið saman á undanliðnum árum í gegnum störf þess fyrrnefnda sem Húsameistari ríkisins.
Áður en Jónas og fjölskylda hans fluttust inn í Hamragarða, höfðu þau búið í skólastjóraíbúð Samvinnuskólans við Sölvhólsveg. Í dag telst húsið eitt verðmætasta íbúðarhús Reykjavíkur.
Heimild
breyta- Fasteignablað Morgunblaðsins, „Hamragarðar - Hávallagata 24 “, Fasteignablað Morgunblaðsins, 6. ágúst 2002.