Gunnlaugur ormstunga
Gunnlaugur ormstunga (u.þ.b. 983 – u.þ.b. 1008) var íslenskt skáld. Gunnlaugur er ein af aðalpersónunum í Gunnlaugs sögu ormstungu, sem tekur nafn sitt eftir honum, en í henni eru margar vísur hans. Í sögunni er honum lýst svo:
- „[H]ann var snemmendis bráðger, mikill og sterkur, ljósjarpur á hár og fór allvel, svarteygur og nokkuð nefljótur og skapfelligur í andliti, miðmjór og herðimikill, kominn á sig manna best, hávaðamaður mikill í öllu skaplyndi og framgjarn snemmendis og við allt óvæginn og harður og skáld mikið og heldur níðskár[.]“
Gunnlaugur trúlofaðist Helgu hinni fögru sem var af ætt Egils Skallagrímssonar. Hann hélt síðan í þriggja ára utanlandsferð eins og hefðbundið var og fyrst til Noregs. Þar gekk hann á fund Eiríks jarls Hákonarsonar og átti við hann orðaskipti.
- Jarl mælti: „Hvað er fæti þínum Íslendingur?“
- „Sullur er á herra,“ sagði hann.
- „Og gekkst þú þó ekki haltur?“
- Gunnlaugur svarar: „Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir.“
Gunnlaugur móðgaði síðan jarlinn með því að rifja upp snautlegan dauðdaga föður hans, Hákonar, og varð að hverfa frá Noregi. Þá hélt hann á fund Aðalráðs Englandskonungs og síðan Ólafs sænska. Þar hitti hann Hrafn Önundarson skáld sem varð hans helsti keppinautur. Þeir ortu báðir kvæði um Ólaf og bað konungur hvorn að meta kvæði hins.
- „Hrafn,“ sagði hann, „hversu er kvæðið ort?“
- „Vel herra,“ sagði hann. „Það er stórort kvæði og ófagurt og nakkvað stirðkveðið sem Gunnlaugur er sjálfur í skaplyndi.“
Gunnlaugur ílengdist í útlöndum þar sem hann flutti ýmsum höfðingjum lofkvæði. Á meðan hélt Hrafn til Íslands og bað Helgu hinnar fögru. Þar sem Gunnlaugur hafði ekki snúið heim á tilsettum tíma var trúlofun hans við Helgu slitið og Hrafn fékk hennar. Sama ár og brúðkaup þeirra var gert kom Gunnlaugur aftur til Íslands og skoraði Hrafn á hólm. Þeir háðu einvígi á Alþingi en hvorugur hafði sigur og í framhaldinu voru hólmgöngur bannaðar á Íslandi. Gunnlaugur og Hrafn gengu þó aftur á hólm erlendis nokkrum árum síðar og féllu báðir.
Heimildir og tenglar
breyta- Finnur Jónsson (1923). Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie. København.
- Gunnlaugs saga ormstungu
- Gunnlaugr ormstunga Geymt 10 mars 2007 í Wayback Machine Varðveittur kveðskapur