Njáll Þorgeirsson

(Endurbeint frá Njáll á Bergþórshvoli)

Njáll Þorgeirsson (einnig nefndur Njáll á Bergþórshvoli) var stórbóndi, lögspekingur og forspár maður, sem bjó á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum á síðari hluta 10. aldar og fram yfir 1010. Hann kemur víða við sögur og virðist hafa verið áhrifamikill í landsmálapólitík síns tíma.

Njáll og Gunnar á Hlíðarenda voru miklir vinir og varð þeim aldrei sundurorða. Konur þeirra hötuðust hins vegar og létu þær árum saman drepa húskarla hvor fyrir annarri en Njáll og Gunnar bættu jafnan hina vegnu með síhækkandi gjöldum.

Endalok Njáls og Bergþóru urðu þau að Flosi Þórðarson á Svínafelli hefndi fyrir víg Höskuldar Hvítanesgoða með því að brenna bæinn á Bergþórshvoli. Fórust þau þar hjónin og synir þeirra allir ásamt dóttursyni þeirra, Þórði Kárasyni, auk nokkurra annarra. Kári Sölmundarson tengdasonur Njáls slapp úr brennunni og hefndi hennar og sonar síns grimmilega næstu árin á eftir.

Lýsing Njáls

breyta

Njáli er lýst í 20. kapitula Brennu-Njáls sögu. Hann er sagður sonur Þorgeirs gollnis Þórólfssonar og Ásgerðar Áskelsdóttir. (Í Landnámabók er Ásgerður sögð Asksdóttir, landnámskona milli Seljalandsmúla og Markarfljóts, og talin móðir Þorgeirs gollnis, sem er þar sagður Ófeigsson en ekki Þórólfsson; Þórólfur er þar sagður landnámsmaður „fyrir vestan Fljót milli Deildará tveggja“, bróðir Ásgerðar en fósturfaðir Þorgeirs gollnis.)

Njáll bjó á Bergþórshvoli í Landeyjum en átti annað bú að Þórólfsfelli. Hann var auðugur að fé og landi. Lögspekingur var hann mestur á Íslandi, langminnugur, vitur, góðgjarn, forspár og heilráður. Hann var friðarsinni og bar aldrei vopn nema fyrir hefðar sakir því eitt sinn bar hann litla taparöxi en þær voru oftast virðingagjafir til forna. Sagt var að hann leysti hvers manns vandræði er á hans fund kom.

Njáll var talsmaður sátta og friðsamlegrar sambúðar. Hann taldi lög vera bestu leiðina til sætta og eftir honum eru höfð hin þekktu orð að „með lögum skuli land byggja en eigi með ólögum eyða“. Hann kaus lagaþing fremur en vopnaþing. Njáll sóttist ekki eftir peningum eða völdum, kaus fremur sæmd og orðstír. Hann var ekki mikill að líkamlegu atgervi og leitaðist því við að auka sæmd sína með ýmsu ráðabruggi og tókst oft vel til með það. Sá löstur þótti á Njáli að honum óx ekki skegg.

Með lýsingunni á Njáli leitast höfundur Njálu við að koma til skila andlegu atgervi hans, visku og góðgirni. Snorri Sturluson minnist einnig á Njál í Eddu sinni en þar tilgreinir hann skáldskap hans og eignar honum eitt heiti sjávar, húmur. Vísan sem Snorri birtir kemur ekki fram í Njálu, þannig að Snorra-Edda er sjálfstæð heimild um Njál.

Fjölskylda

breyta

Kona Njáls var Bergþóra Skarphéðinsdóttir og er henni lýst svo að hún hafi verið drengur góður. Börn þeirra voru sex að sögn Njálu, þrír synir og þrjár dætur. Skarphéðinn, Grímur og Helgi eru kallaðir einu nafni Njálssynir; dæturnar hétu Þorgerður og Helga, en sú þriðja er ekki nefnd. Auk þess átti Njáll soninn Höskuld með Hróðnýju Höskuldsdóttur frá Keldum.

Synir Njáls og Bergþóru voru kvæntir og áttu börn. Kona Skarphéðins var Þórhildur Hrafnsdóttir, kona Helga var Þórhalla Ásgrímsdóttir og kona Gríms var Ástríður af Djúpárbakka og var hann seinni maður hennar. Dætur þeirra hjóna voru einnig giftar. Þorgerður var gift Katli Sigfússyni í Mörk og Helga var gift Kára Sölmundarsyni.

Uppeldi

breyta

Njálssynir urðu allir vaskir menn og miklir af rammleik. Faðir þeirra virðist þó oftast hafa tangarhald á þeim og þeir hlýtt honum í flestu. Heilræði Njáls voru alltaf til taks fyrir synina þegar á þurfti að halda. Í sögunni heldur Njáll hugmyndina um feðraveldi í heiðri og gengur að því vísu að vilji hans sé virtur, þ.e. að hann ráði öllu. Hann reynir að ráðstafa lífi sona sinna á sem hagstæðasta hátt fyrir fjölskyldu sína. Synir hans virðast af þeim sökum ekki vera mjög sjálfstæðir. Þeir dvelja löngum stundum á Bergþórshvoli og fylgja Njáli nær alltaf.

Skarphéðinn var ólíkur Njáli þar eð hann var líkamlega sterkur og vildi láta vopnin tala. Njáll virðist ekki hafa haft mikið dálæti á honum en Bergþóra mat hann mikils, enda voru þau um margt lík. Hins vegar lét hann meira með Helga, sem var forspár líkt og faðir hans. Grímur Njálsson virðist hvorki hafa verið Njáli til ama né mikillar sæmdar. Þórhallur Ásgrímsson Elliða-Grímssonar var einnig í fóstri á Bergþórshvoli. Honum kenndi Njáll lög svo vel að eftir dauða Njáls var hann sagður einn af þremur lögfróðustu mönnum Íslands.

Þegar Njáll var fimmtugur tók hann Höskuld Þráinsson í fóstur. Það virðist hafa verið ætlun hans að reyna með því að forðast deilur síðar meir þar sem synir hans höfðu vegið Þráin föður Höskulds. Höskuldur var að mörgu líkari Njáli en synir hans og unni Njáll að eigin sögn Höskuldi meira en blóðsonum sínum. Þó kann að vera að hann hafi látið svo til að reyna að forðast hefndir frænda Höskuldar eftir víg hans. Hann ól Höskuld upp af kostgæfni og gerði hann að manni vinsælum og leiðtoga í sveitinni. Ást Njáls á Höskuldi kom bersýnilega í ljós þegar hann gekk framhjá elsta syninum, Skarphéðni, og kom því til leiðar að Höskuldi var veitt goðorð.

Hjónaband og vinátta

breyta

Hjónabönd í Íslendingasögum verða oftar en ekki valdur að afdrifaríkri atburðarás og er Njála þar engin undantekning. Hjónaband Hallgerðar langbrókar og Gunnars á Hlíðarenda var vægast sagt ófarsælt. Það tengist einnig sambandi Bergþóru og Njáls. Njáll mat Gunnar meira en syni sína og reyndi Bergþóra að auka sæmd Helga á kostnað Gunnars. Það gerði hún með því að láta Hallgerði víkja úr sæti á Bergþórshvoli fyrir konu Helga. Hún vissi að Hallgerði rynni í skap og hún mundi erfa þetta við hana. Bergþóra var snjöll rétt eins og Njáll en beitti kænsku sinni ekki alltaf í sömu átt.

Gunnar á Hlíðarenda

breyta

Vinátta Njáls og Gunnars var með eindæmum góð þótt á þeim væri töluverður aldursmunur og eru fá dæmi um slík vinatengsl í íslensku fornsögunum. Með samspili andlegs atgervis Njáls; visku hans og góðvildar, og líkamlegs atgervis Gunnars varð til mjög sterkt tvíeyki og er nærtækast dæmið um Kaupa-Héðin; Hrútur mátti sín einskis, þótt vitur væri, gagnvart kænsku Njáls og hetjuskap Gunnars. Vinum sínum reyndist Njáll ávallt vel og voru margir fúsir að veita honum lið sökum þess. Nefna má að Hjalti Skeggjason hét Njáli liðveislu og sagði heilræði Njáls, sem hann hafði veitt honum áður, vera næg laun.

Örlögin

breyta

Njáll ólst upp við heiðni og þá siði sem henni fylgdu, svo sem hefndarskylduna. Hann tók kristni á gamals aldri en ávallt var togstreitan milli hins gamla og nýja siðar til staðar. Þegar Höskuldur var veginn var Njáll orðinn gamall, að öllum líkindum um áttrætt. Hann gerði sér grein fyrir að það illvirki sem synir hans höfðu framið var óbein afleiðing ráða hans, að láta stofna Hvítanesgoðorð til handa Höskuldi og gera þannig á hlut Marðar Valgarðssonar. Mörður rægði saman Njálssyni og Höskuld og leiðir það til vígs Höskuldar og síðan brennufarar Flosa eftir að Hildigunnur Starkaðardóttir, ekkja Höskuldar, eggjaði hann til hefnda.

Njáll, sem hafði reynt að forðast hefndina með því að taka Höskuld í fóstur, játaði sig sigraðan og gaf sig á vald örlaganna, sem hann hafði séð fyrir löngu áður. Þegar hann sá menn Flosa nálgast Bergþórshvol vissi hann hvað var í aðsigi. Hann ráðlagði sonum sínum að fara inn og hlýddu þeir ráði hans þótt Skarphéðinn vildi heldur verjast utandyra. Njáll virðist hafa verið búinn að gefast upp á því að reyna að sveigja örlögin sér í hag.

Kristniáhrif

breyta

Þegar búið var að bera eld að bænum og konur urðu óttaslegnar lét Njáll mjög athyglisverð orð falla: „Trúið þér ok því, at guð er miskunnsamr, ok mun hann oss eigi láta brenna bæði þessa heims ok annars.“ Þar koma bersýnilega í ljós áhrif kristni á Njál þar sem hann telur að með því að brenna inni muni hann og aðrir hreinsast af syndum sínum í samræmi við trúna á hreinsunareldinn á þessum tíma.

Að lokum

breyta

Það er ljóst að Njáll er margslunginn persónuleiki en ávallt hefur verið litið á hann sem eitt af góðmennum Brennu-Njáls sögu og Íslendingasagna yfir höfuð. Skeggleysið kann að hafa verið vísbending um karlmennskuleysi hans og var talið honum til minnkunnar en viska hans vó upp á móti því. Þó má segja að góðmennska hans hafi orðið honum að falli þar eð ráð hans undu upp á sig og urðu kveikja að þeirri atburðarás sem varð bani hans og sona hans.

Heimildir

breyta
  • Brennu-Njáls saga. 1954. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Íslensk fornrit XII. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
  • Kristján Jóhann Jónsson. Lykillinn að Njálu. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1998.
  • Einar Ólafur Sveinsson. Á Njálsbúð: Bók um mikið listaverk. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1943.

Tenglar

breyta