Hróar Tungugoði var íslenskur kappi á söguöld og á Hróarstunga að draga nafn af honum. Talið er að til hafi verið Íslendingasaga um hann sem kölluð hefur verið Hróars saga Tungugoða en ekkert hefur varðveist af henni og fátt er vitað um efni hennar. Hróar er nefndur í Landnámu, Njáls sögu og Fljótsdælu, en þeim ber ekki alltaf saman.

Hróar er sagður hafa verið sonur Þórunnar dóttur Leiðólfs kappa og Una Garðarssonar Svavarssonar og segir frá því í Landnámu að Uni hafi barnað Þórunni þegar hann var gestur föður hennar eftir að hann hafði verið hrakinn úr landnámi sínu. Hann hafi ekki viljað kvænast henni og tvisvar reynt að strjúka en þegar hann strauk í seinna skiptið hafi Leiðólfur orðið svo reiður að hann drap hann og förunauta hans.

Hróar tók allan arf eftir Leiðólf. Kona hans var Arngunnur Hámundardóttir, systir Gunnars á Hlíðarenda, og voru börn þeirra Ormhildur og Hámundur halti, sem bjó á Hámundarstöðum í Vopnafirði og er sagður hafa verið hinn mesti vígamaður; synir hans, Hróar og Vébrandur, eru nefndir í Njálu. Í Landnámu segir aftur á móti að Vébrandur hafi heitið sonur Hróars og ambáttar. Einnig segir þar að hann hafi tekið Þórunni brún Þorgilsdóttur úr Hvammi í Mýrdal frillutaki og hafi sonur þeirra heitið Þorfinnur.

Í Landnámu er þessi frásögn, sem talin er komin úr hinni glötuðu Hróars sögu: „Tjörvi hinn háðsami og Gunnar voru (systur)synir Hróars. Tjörvi bað Ástríðar manvitsbrekku Móðólfsdóttur, en bræður hennar, Ketill og Hrólfur, synjuðu honum konunnar, en þeir gáfu hana Þóri Ketilssyni. Þá dró Tjörvi líkneski þeirra á kamarsvegg, og hvert kveld, er þeir Hróar gengu til kamars, þá hrækti hann í andlit líkneski Þóris, en kyssti hennar líkneski, áður Hróar skóf af. Eftir það skar Tjörvi þau á knífsskefti sínu og kvað þetta:

Vér höfum þar sem Þóri,
þat vas sett við glettu,
auðar unga brúði
áðr á vegg of fáða.
Nú hefk, rastkarns, ristna
réðk mart við Syn bjarta,
hauka, skofts, á hefti
Hlín ölbækis mínu.

Hér af gerðust víg þeirra Hróars og systursona hans.“

Árið 2016 fannst sverð frá víkingaöld í fornu kumli á Ytri-Ásum. Þar sem kumlið var staðsett þar sem goðorð Hróars var á 10. öld var því velt upp að sverðið kunni að hafa tilheyrt honum eða syni hans, Hámundi.[1][2]

Heimildir

breyta
  • „Landnámabók“.
  • „Hróar Tungugoði; grein í Lesbók Morgunblaðsins 13. ágúst 1994“.
Tilvísanir
  1. „Átti Hró­ar Tungugoði eða Há­mundi halti sverðið?“. mbl.is. 3. október 2016. Sótt 20. janúar 2019.
  2. „Eigna má sverðið Hróari Tungugoða“. Vísir. 9. september 2016. Sótt 20. janúar 2019.

Tenglar

breyta