Gullborinn er þýskur höggbor sem upphaflega var fluttur til Íslands til að grafa eftir gulli í Vatnsmýrinni í Reykjavík og síðar eftir gufu til rafmagnsframleiðslu inn í Þvottalaugum. Ekki fannst gull og ekki fannst nothæf gufa en það fannst heitt vatn sem hentaði til að hita upp hús og var það upphaf að hitaveitu í Reykjavík. Forsaga þessa er að fyrri hluta í september 1904 var borað eftir vatni í Reykjavík. Var fenginn til landsins danskur höggbor og með honum boraðar einhverjar holur. Fyrsta holan náði niður á 40 metra dýpi en lokadýpi hennar var 55 metrar. Það fannst vatn í fyrstu holunni en meiri athygli vakti að frásagnir bárust af gullfundi á 40 metra dýpi. Dreift var fregnmiða um gullfundinn í Reykjavík 1. apríl 1905. Mikil greinaskrif voru í blöðum um meintan gullfund. Bletturinn þar sem leitað var eftir vatni í Vatnsmýrinni var endurnefndur og kallaður Gullmýri. Bæjarstjórn Reykjavíkur stofnaði sérstaka námunefnd til að gæta hagsmuna bæjarins og veita rannsóknarleyfi. Athafnamenn í Reykjavík stofnuðu félagið Mámur hf. til að leita að gulli og kanna aðstæður til námurekstrar. Útvegaður var danskur höggbor og byrjað að bora í Vatnsmýrinni í júlí og hætt í nóvember en þá var holan orðin yfir 70 metra djúp. Um 300 sýni voru tekin til greiningar. Tvennum sögum fer af því hvort og hve mikil gull fannst.

Í maí 1921 sóttu tveir reykvískir járnsmiðir um einkaleyfi til málmleitar í Vatnsmýrinni og var það samþykkt. Í framhaldi var stofnað hlutafélagið Málmleit árið 1922 og voru hluthafar 49. Fenginn var til landsins þýskur haglabor sem var nefndur Gullborinn. Borinn var fluttur í Gullmýri niður undir Suðurpól, reistur skúr yfir borinn og lagður rafstrengur frá honum að Kennaraskólahúsinu við Laufásveg. Boraðar voru tvær holur með handafli. Staðsetning annarar holunnar mun vera á þeim stað þar sem nú eru undirgöng undir nýju Hringbraut í Gullmýrinni. Hlutafélagið Málmleit fór í greiðsluþrot og borunum var hætt.

Gullborinn stóð ónotaður í Gullmýrinni í nokkur ár. Þá vaknaði áhugi á að nýta jarðhitann í Þvottalaugunum ekki aðeins til þvotta heldur einnig til rafmagnsframleiðslu. Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti Gullborinn vorið 1928 og flutti í Þvottalaugar. Þar voru boraðar 14 holur næstu árin og fékkst vatn sem var 92 gráðu heitt og 23 lítrar á sekúndu. Vatnið var ekki nógu heitt til rafmagnsframleiðslu en nógu heitt til að hita upp hús. Lögð var veita sem flutti vatn til Reykjavíkur og var fyrsta húsið sem tengt var við veitunna árið 1930 Austurbæjarskólinn sem þá var nýreistur. Hitaveitan úr Þvottalaugunum sem oft er nefnd Laugaveitan varð upphaf að Hitaveitu Reykjavíkur en Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur sameinuðust í Orkuveitu Reykjavíkur 1999. Með Gullbornum voru alls boraðar 76 holur, bæði til leitar á heitu og köldu vatni. Gullborinn þ.e. þýski höggborinn er varðveittur á Árbæjarsafni. Ljósmyndir eru til af fyrirrennara hans danska höggbornum.[1]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Þorgils Jónasson, Gull og vatn í Reykjavík ,Náttúrufræðingurinn - 3.-4. Tölublað (2006), bls. 109-117