Gullæðið í Reykjavík

Gullæðið í Reykjavík er fréttir og umræða um gullfund í Reykjavík sem byrjaði með fregnmiða sem sendur var út 1. apríl 1905. Bæjarstjórn Reykjavíkur lét bora eftir heitu vatni í tagli Öskjuhlíðar, niður undir Vatnsmýri og annaðist verkið danskur bormaður. Síðasta dag marsmánaðar tók hann eftir að borinn kom við glóandi málm á 40 metra dýpi. Hannes H. Hansson gullnemi frá Ameríku sem vanur var námagrefti frá Klondike fullyrti að það væri gull. Mikið var látið með hinn meinta gullfund í blöðum, rannsóknir héldu áfram en það er á reiki hvort nokkuð gull fannst. Sett var á stofn námunefnd á vegum bæjarins og félag stofnað til að rannsaka frekar. Aðalhvatamaður að því félagi var Sturla Jónsson kaupmaður. Árið 1907 samþykkti Alþingi námulög og síðan breytingar á þeim 1909 og munu þau lög tengjast hinum meinta gullfundi í Vatnsmýrinni. Stofnað var hlutafélagið Málmur. Málmbræðslumaður Arnór Árnason að nafni búsettur í Chicago fékk sýnishorn af sandi úr einni holu af litlu dýpi og staðhæfði að þar væri vinnanlegt gull ef um stóriðju væri að ræða. Staðhæfingum Arnórs var mótmælt í blöðum af Birni Kristjánssyni kaupmanni. Hlutafélagið Málmur keypti bor og boraði árið 1907. Á 45 m dýpi fannst bæði gull og silfur. Áriið 1910 varð hlutafélagið Málmur gjaldþrota. Gullæðið hafði áhrif á lóðaverð í Reykjavík og spákaupmennsku með lóðir. Margar lóðir fóru úr 1.500 í 15.000 kr. Árið 1922 var stofnað félagið Málmleit sem leitaði að gulli á svipuðum slóðum og notaði til þess Gullborinn en það félag lognaðist út af árið 1929.[1]

Tengt efni breyta

Tilvísanir breyta

  1. Eggert Þór Bernharðsson, Gullæðið í Reykjavík, Sagnir - 1. tölublað (01.04.1984) bls. 108-116