Þvottalaugarnar voru heitar laugar sem notaðar voru til þvotta af húsmæðrum og vinnukonum í Reykjavík frá því að þéttbýli myndast og allt fram á 20. öld. Þær voru staðsettar í Laugamýri sem var í landi hins forna býlis Laugarness. Afrennsli úr laugunum var í Laugalæk sem rann til sjávar á Kirkjusandi.

Þvottalaugarnar í byrjun 20. aldar
Þvottalaugarnar árið 1925
þvottalaugarnar um 1911
Minjar um Þvottalaugarnar

Þvottalaugarnar eru nú þurrar, en mjög dró úr notkun þeirra árið 1930 er Laugaveitan var virkjuð og markaði upphaf hitaveitu í Reykjavík.

Á útivistarsvæðinu í Laugardal er hægt að skoða ummerki frá tíma Þvottalauganna. Þar eru fræðsluskilti um sögu lauganna og minnisvarði um framlag Thorvaldsenskvenna sem afhjúpaður var 19. nóvember 2005. Útilistaverkið Þvottakona (1958) eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara stendur í Laugardalnum til minningar um vinnu þvottakvenna.

Heita vatnið í Þvottalaugunum voru vissulega hlunnindi þó nýtingunni fylgdi margvíslegt erfiði. „Það var ekki fyrr en árið 1833 sem þar var reist hús svo hægt væri að þvo innandyra. Fyrir þeim framkvæmdum stóð Regner C. Ulstrup bæjar- og landfógeti og efndi til samskota í því skyni. Honum hafði blöskrað að sjá konur standa úti við þvotta að vetrinum, myrkranna á milli – ýmist í brennandi heitri gufu eða frostköldum næðingi. En árið 1857 fauk þetta skjól í illiviðri.[1]

Liðu nú hartnær 30 ár þar til frekari úrbætur urðu í málefnum þvottakvenna. Thorvaldsensfélagið gekkst fyrir því að reist var myndarlegt þvottahús árið 1887 sem það afhenti bæjarfélaginu til eignar 1889. Sama ár var tilbúinn vagnfær vegur frá Reykjavík inn í Laugardal, Laugavegurinn, sem var stórkostleg samgöngubót fyrir þvottakonurnar sem áður höfðu þurft að ganga vegleysu með þvottinn á bakinu.

Notkun þvottalauganna minnkaði eftir 1909 þegar neysluvatn var leitt í hús í Reykjavík. Vegna fyrri heimstyrjaldarinnar varð svo mikill eldsneytisskortur að bæjarbúar fóru almennt að þvo í Þvottalaugunum á nýjan leik.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Guðjón Friðriksson (1994): 134.

Heimildir

breyta
  • Guðjón Friðriksson. (1994). Saga Reykjavíkur - bærinn vaknar. 1870-1940 (Síðari hluti). Reykjavík: Iðunn.
  • Páll Líndal. (1987). Reykjavík Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • Þorleifur Óskarsson. (2002). Saga Reykjavíkur - í þúsund ár. 870-1870 (Síðari hluti). Reykjavík: Iðunn.
  • Þvottlaugarnar (Fjallkonan.is) Geymt 9 apríl 2016 í Wayback Machine
  • Þvottalaugarnar (Ferlir.is)